Fara í efni

Nýt hvers vinnudags

Steinunn Jóna Sævaldsdóttir stuðningsfulltrúi.
Steinunn Jóna Sævaldsdóttir stuðningsfulltrúi.

Steinunn Jóna Sævaldsdóttir – Steina Jóna – hefur undanfarin þrettán ár starfað sem stuðningsfulltrúi á starfsbraut VMA og segist njóta hvers dags í vinnunni, engir tveir dagar séu eins.

„Þetta byrjaði einfaldlega þannig að árið 2007 sá ég starfsauglýsingu í Dagskránni og ákvað strax að sækja um. Mér fannst þetta spennandi starf og langaði að prófa eitthvað allt annað en ég hafði verið að vinna við. Ég hafði áður starfað í sjö ár í grunnskólum sem skólaliði og stuðningsfulltrúi. Ég fór síðan í stuðningsfulltrúanám sem VMA bauð upp á. Námið var seinnipart dags, þrisvar í viku, og ég byrjaði í því haustið 2005 og lauk því vorið 2007. Um haustið fékk ég síðan þessa vinnu hér á starfsbrautinni og hef verið í henni síðan,“ segir Steina Jóna.

„Ég vissi út af fyrir sig ekkert út í hvaða djúpu laug ég var að stinga mér þegar ég sótt um þetta starf. En mér fannst þetta skemmtilegt og finnst ennþá alltaf jafn gaman að mæta í vinnuna. Það eru engir tveir dagar eins. Við vinnum í mikilli nálægð við krakkana og því tengjumst við, bæði kennarar og stuðningsfulltrúar, þeim sterkum böndum. Ég viðurkenni fúslega að oft finnst mér erfitt að skilja við krakkana eftir að hafa unnið með þeim í fjögur ár. Krakkarnir sjá hlutina oft í öðru ljósi og af þeim er maður að læra á hverjum einasta degi. Það gefur mér mikið að sjá krakkana þroskast og verða sjálfstæðari á þeim árum sem þeir eru hjá okkur. Í þessu starfi finnst mér miklu máli skipta að hlusta vel eftir þeirra röddum og tjáningu. Þetta er oft  þolinmæðisvinna en hún er jafnframt afskaplega gefandi,“ segir Steina Jóna.