Fara í efni

Nýsveinahátíð 2014: Fjórir VMA-nemar fá verðlaun

Fjórir nemendur Verkmenntaskólans á Akureyri sem luku sveinsprófum á árinu 2013 hljóta nk. laugardag, 1. febrúar, viðurkenningar Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík fyrir afburða árangur á sveinsprófum í sínum fögum, en 20 nemendur af öllu landinu fá slíkar viðurkenningar að þessu sinni. VMA-nemarnir eru Dýri Bjarnar Hreiðarsson í húsasmíði, Eyþór Halldórsson í húsgagnasmíði, Jóhanna Eyjólfsdóttir í hársnyrtiiðn og Sveinbjörg Jana Aðalsteinsdóttir í hársnyrtiiðn.

Fjórir nemendur Verkmenntaskólans á Akureyri sem luku sveinsprófum á árinu 2013 hljóta nk. laugardag, 1. febrúar, viðurkenningar Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík fyrir afburða árangur á sveinsprófum í sínum fögum, en 20 nemendur af öllu landinu fá slíkar viðurkenningar að þessu sinni. VMA-nemarnir eru Dýri Bjarnar Hreiðarsson í húsasmíði, Eyþór Halldórsson í húsgagnasmíði, Jóhanna Eyjólfsdóttir í hársnyrtiiðn og Sveinbjörg Jana Aðalsteinsdóttir í hársnyrtiiðn.

Þetta er í sjöunda skipti sem Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík, sem á sér 147 ára sögu, stendur fyrir slíkri nýsveinahátíð. Hátíðin verður í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur nk. laugardag, sem fyrr segir. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, verndari hátíðarinnar, ávarpar hana og afhendir verðlaun ásamt stjórnarfólki í Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík. Einnig flytja ávörp Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðhera, Jón Gnarr borgarstjóri og Elsa Haraldsdóttir formaður Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík. Einnig verða tónlistaratriði. Við þetta tækifæri hlýtur Eggert Jóhannsson feldskeri gullverðlaun - sérstaka heiðursviðurkenningu.

Sem fyrr segir fá tuttugu nýsveinar úr hinum ýmsu iðngreinum viðurkenningar, þar af fjórir fyrrum nemendur VMA. Dýri Bjarnar Hreiðarsson og Eyþór Halldórsson hljóta silfurverðlaun. Meistari Dýra Bjarnars var Hreiðar Bjarni Hreiðarsson og meistari Eyþórs var Sæmundur Gauti Friðbjörnsson. Jóhanna Eyjólfsdóttir og Sveinbjörg Jana Aðalsteinsdóttir hljóta bronsverðlaun. Meistari Jóhönnu var Ingibjörg Jóhannesdóttir og meistari Sveinbjargar Jönu var Eva Fjölnisdóttir.

Halldór Torfi Torfason, brautarstjóri byggingadeildar, segist afar ánægður með viðurkenningar þeirra Dýra Bjarnar og Eyþórs, bæði fyrir þeirra hönd og einnig skólans. „Það skiptir miklu máli að fá slíkar viðurkenningar. Við erum að mínu mati með metnaðarfullt og gott starf í byggingadeildinni og aðstaðan hjá okkur er virkilega góð,“ segir Halldór Torfi.

Harpa Birgisdóttir, brautarstjóri hársnyrtibrautar, segir þessar viðurkenningar til Jóhönnu og Sveinbjargar Jönu vera afar ánægjulegar og þær séu „ótrúlega mikið klapp á bakið“ og hvetjandi fyrir þá sem koma að starfi hársnyrtibrautarinnar. Brautin sé ung að árum og til marks um það hafi þær stöllur verið í fyrsta útskriftarhópnum vorið 2012, en þá útskrifuðust 9 nemendur. Annar hópur var síðan útskrifaður í desember sl. Af þessum níu nemendum hafa nú þegar átta lokið sveinsprófi og sveinspróf er á dagskrá hjá þeim níunda á þessu ári. „Við ýttum þessari braut hér í VMA úr vör árið 2008 og þá hafði verið uppihald í þessu námi á Akureyri í langan tíma. Þetta hefur gengið mjög vel og viðurkenningar þeirra Jóhönnu og Sveinbjargar Jönu eru okkur mikilvægar og þær staðfesta að hér leggjum við áherslu á og vinnum að því að bjóða upp á metnaðarfullt og gott nám,“ segir Harpa.