Fara í efni

Nýr valáfangi á haustönn um miðlun og tækni - námsvali lýkur 15. mars

Horft er til lýsingar, hljóð- og myndvinnslu o.fl.
Horft er til lýsingar, hljóð- og myndvinnslu o.fl.

Hilmar Friðjónsson kennari við VMA hefur lengi haft mikinn áhuga á hverskonar miðlun og það hefur ekki farið framhjá neinum af hans nemendum hversu ötull hann er í því að nýta sér ýmsar tæknilausnir til þess að miðla námsefninu til nemenda. Til fjölda ára hefur Hilmar átt sér þann draum að kenndur væri sérstakur áfangi í miðlun við VMA og nú er í sjónmáli að þessi draumur sé að verða að veruleika. Næsta haust verður boðið upp á valáfangann MIÐL2MT05 – Miðlun og tækni. Allir áhugasamir eru hvattir til þess að bregðast skjótt við því á morgun, 15. mars, verður lokað fyrir námsval á haustönn.

Með þessum nýja miðlunaráfanga verður sem sagt brotið blað og þessi gamli draumur Hilmars raungerist. Ekki aðeins verður þessi áfangi í boði í VMA, hér er um að ræða samstarf allra framhaldsskóla á Norðausturlandi; VMA, MA, Menntaskólans á Tröllaskaga, Framhaldsskólans á Laugum og Framhaldsskólans á Húsavík.

Til að byrja með viðraði Hilmar hugmyndina við Sigríði Huld skólameistara VMA og í framhaldinu ræddu skólameistarar skólanna fimm um samstarf í þessum efnum. Síðan var myndaður samstarfshópur kennara úr öllum skólunum, sem Lára Stefánsdóttir, skólameistari MTR, leiddi og hefur hann farið yfir málið á fjarfundum. Í hópnum eru frá VMA Hilmar og Jóhannes Árnason, frá MA Anna Eyfjörð Eiríksdóttir, fulltrúi MTR er Sigurður Mar Halldórsson, frá Framhaldsskólanum á Húsavík eru Sigurður Narfi Rúnarsson og Halldór Jón Gíslason og Andri Hnikarr Jónsson er frá Framhaldsskólanum á Laugum.

Hilmar segir að nafn áfangans – Miðlun og tækni - sé vissulega víðtækt en áfanginn sé m.a. hugsaður fyrir nemendur sem eru áhugasamir um tækni og notkun hennar í myndatöku (lifandi myndir og ljósmyndir), lýsingu, hljóðvinnslu og hljóðupptökurm, streymi á netinu, mynduppbyggingu, litavinnslu o.fl. Möguleikarnir eru ótæmandi, segir Hilmar.

Til frekari upplýsinga skal vísað til námslýsingarinnar á vef VMA en þar segir m.a.:

Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur kynnist miðlun og tækni ásamt skipulagi og stjórnun smærri viðburða. Farið er yfir hæfniþætti sem liggja að baki viðburðum og útsendingum. Fengist er við handritagerð, höfundarrétt og persónuverndarlög ásamt handritagerð fyrir hljóð- og myndefni. Einnig er farið yfir grunn í raddbeitingu og líkamstjáningu. Farið er yfir myndbyggingu, liti, sjónarhorn, lýsingu og listræna tjáningu myndefnis ásamt því að spreyta sig á notkun tækja og búnaðar til framleiðslu efnisins.

Hilmar segir að í smáatriðum eigi skólarnir eftir í sameiningu að móta kennsluna enn frekar en ljóst sé að hún verði blanda af fjar- og staðnámi, bæði bóklegt nám og verklegt.

Til viðbótar við að koma til móts við þá nemendur sem hafa mikinn áhuga á tæknimálum segir Hilmar að hér gefist tækifæri til þess að byggja upp og styrkja tækni sem þarf að vera til staðar í félagslífi nemenda í hverjum skóla fyrir t.d. viðburði af ýmsum toga; leiksýningar, tónleika, íþróttaviðburði o.s.frv.

Það þarf ekki að hafa um það mörg orð að það hafa orðið byltingarkenndar breytingar í tæknimálum á undanförnum árum með tölvuvæðingunni, spjaldtölvunum og símunum. Þessi tækni býður upp á óendanlega möguleika en það þarf að kunna að nýta hana. Valáfanginn Miðlun og tækni er ákveðið svar við þessari þörf.

Hilmar segir að nú þegar hafi verið rætt við Menningarhúsið Hof um mögulegt samstarf í þessum efnum og þar hafi komið fram mikill velvilji. Og almennt megi segja að samstarf um þennan nýja áfanga njóti mikils velvilja í skólunum fimm og nærumhverfinu.