Fara í efni

Nýr samningur mikilvægur

Jón Þór Sigurðsson, verkefnastjóri FabEy – Fab Lab smiðjunnar sem er til húsa í VMA – segir að nýr samstarfssamningur FabEy annars vegar og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis hins vegar um styrk til reksturs smiðjunnar gefi henni byr undir báða vængi. Gengið var frá samningnum í síðasta mánuði og í kjölfarið var auglýst staða tæknifulltrúa sem mun annars vegar starfa í FabEy og hins vegar í VMA. Umsóknarfrestur er nú liðinn og verður ráðið í stöðuna áður en langt um líður.

Á Íslandi eru starfræktar átta Fab Lab smiðjur – þar sem stafrænni tækni er beitt á ýmsan hátt í að skapa nýja og skemmtilega hluti. Árið 2016 hófst markviss undirbúningur að FabEy en hún tók síðan til starfa á árinu 2017. Frá upphafi hefur Jón Þór Sigurðsson verið verkefnastjóri og jafnframt eini starfsmaður smiðjunnar en með ráðningu tæknistjóra til viðbótar í hálft starf við FabEy segir hann að skapist nýir möguleikar og unnt verði að auka og bæta þjónustuna við bæði skóla og almenning á svæðinu.

Jón Þór segir að þessi nýi samningur geri FabEy og öðrum Fab Lab smiðjum kleift að leggja línur um starfsemina til næstu ára, sem sé mjög mikilvægt, og í því skyni sé ætlunin að forráðamenn smiðjanna hittist fyrir næsta skólaár og stilli saman strengi.

Frá opnun FabEy hefur starfsemin verið fjölbreytt, þótt vissulega hafi Covid sett nokkurt strik í reikninginn á síðustu tólf mánuðum. Skólarnir hafa nýtt sér aðstöðuna í FabEy, einnig hafa verið opnir tímar fyrir almenning og í þriðja lagi hafa verið námskeið þar á vegum Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar. Jón Þór segir að margar deildir VMA hafi nýtt sér þá tækni sem FabEy bjóði upp á, t.d. byggingadeild, rafiðndeildin og vélstjórn. Einnig hafa verið námskeið á haustönn þar sem nemendur á starfsbraut hafa fengið að kynnast þessari stafrænu tækni og því sem hún býður upp á.