Fara í efni

Ný stjórn Þórdunu

Rafræn kosning var að þessu sinni um nýja stjórn nemendafélagsins Þórdunu og fór hún fram sl. mánudag og þriðjudag. Niðurstöður kosninganna lágu fyrir í gær og eru sem hér segir:

Formaður Þórdunu: Anna Kristjana Helgadóttir
Varaformaður Þórdunu: Tumi Snær Sigurðsson
Ritari Þórdunu: Anna Birta Þórðardóttir
Skemmtanastjóri Þórdunu: Camilla Mist S. Andradóttir
Eignastjóri Þórdunu: Agnar Sigurðarson
Kynningarstjóri Þórdunu: Ragnhildur Ásta Ragnarsdóttir
Formaður hagsmunaráðs Þórdunu: Kormákur Rögnvaldsson
Formaður Leikfélags VMA: Embla Björk Jónsdóttir
Varformaður Leikfélags VMA: Elín Gunnarsdóttir
Stjórn Æsis – meðstjórnandi: Aðalheiður Agnes Hermannsdóttir

Fyrir þessar kosningar voru framboð í allar stöður nema gjaldkera Þórdunu. Til viðbótar við framangreinda á því eftir að manna stöðu gjaldkera og fulltrúi nýnema í stjórn Þórdunu verður kjörinn við upphaf haustannar. Hér má sjá kynningar á frambjóðendum í kosningunum í vikunni.

Kosið var milli frambjóðenda í annars vegar embætti formanns Þórdunu og hins vegar formanns Leikfélags VMA. Í formann Þórdunu var kosið á milli Önnu Kristjönu og Halldórs Birgis Eydal og hafði Anna Kristjana betur en hún hefur verið formaður Þórdunu í vetur. Til formanns Leikfélags VMA var kosið á milli Emblu Bjarkar Jónsdóttur og Sveins Brimars Jónssonar. Embla Björk náði kosningu.

Anna Kristjana segist vera mjög ánægð með þá niðurstöðu að hafa verið endurkjörin formaður Þórdunu. Það skólaár sem nú sé senn á enda hafi verið öðruvísi en öll önnur skólaár og félagslífið hafi markast af því. „Þetta hefur svo sem ekki verið alslæmt en vissulega öðruvísi og margt sem maður hefði viljað gera öðruvísi. En ég lærði helling af þessum vetri og mun nýta það á næsta skólaári. Ég held að það verði brjálað að gera í félagslífinu næsta vetur,“ segir Anna Kristjana.