Fara í efni

Ný leið í viðskiptanámi í VMA

Næsta skólaár býður Verkmenntaskólinn á Akureyri upp á aðra útfærslu af viðskiptabraut – til viðbótar við núverandi viðskipta- og hagfræðibraut skólans. Má í raun segja að þessi nýja námsbraut sé byggð á gömlum grunni verslunarprófs sem VMA bauð upp á hér áður. Til viðbótar við rekstrar- og viðskiptagreinar er lögð rík áhersla á frumkvöðlafræði og nýsköpun, auk vöruhönnunar. Brautin er byggð upp til 140 eininga.

Næsta skólaár býður Verkmenntaskólinn á Akureyri upp á aðra útfærslu af viðskiptabraut – til viðbótar við núverandi viðskipta- og hagfræðibraut skólans. Má í raun segja að þessi nýja námsbraut sé byggð á gömlum grunni verslunarprófs sem VMA bauð upp á hér áður. Til viðbótar við rekstrar- og viðskiptagreinar er lögð rík áhersla á frumkvöðlafræði og nýsköpun, auk vöruhönnunar. Brautin er byggð upp til 140 eininga.

Á þessari nýju braut er ekki gert ráð fyrir að nemendur taki þriðja tungumálið, eins og t.d. nemendur á viðskipta- og hagfræðibraut, en á móti kemur að nemendur taka svokallaða viðskiptaensku til viðbótar við aðra enskuáfanga.  Samsetning stærðfræðiáfanga verður með eilítið öðru sniði en á viðskipta- og hagfræðibraut, t.d. verður meiri áhersla á tölfræði á þessari nýju viðskiptabraut.

„Með þessari leið, sem nemendum stendur til boða frá og með næsta skólaári og við erum að hefja kynningu á, leggjum við aukna áherslu á frumkvöðlafræði og tengingu við atvinnulífið. Á viðskipta- og hagfræðibraut höfum við verið í erlendu samstarfi og munum halda því áfram. Við viljum vekja athygli á bæði núverandi viðskipta- og hagfræðibraut og þeirri nýjung sem við erum núna að kynna sem gríðarlega góðum grunni fyrir háskólanám og daglegt líf hvers og eins. Þeir nemendur af viðskipta- og hagfræðibrautinni okkar sem hafa farið í háskólanám tala um að þeir hafi mjög góðan grunn til að byggja á,“ segir Sunna Hlín Jóhannesdóttir, fagstjóri viðskipta- og upplýsingatæknigreina.

Jónas Jónsson, kennslustjóri samfélagssviðs, segir að þessi nýja braut sé stúdentspróf að loknu starfsnámi, sem felist ekki síst í frumkvöðlafræði, vöruhönnum o.fl. „Frumkvöðlafræðin, vöruhönnun og fleira sem verður á þessari nýju námsbraut gefur okkur möguleika á að tengjast í auknum mæli við t.d. listnámsbraut skólans, sem er mjög jákvætt,“ segir Jónas Jónsson.