Fara í efni

Unnið að nýjum kynningarmyndböndum

Frumsýning myndbandanna var á Laugum í vikunni.
Frumsýning myndbandanna var á Laugum í vikunni.

Í vetur hefur Jón Tómas Einarsson, kvikmyndagerðarmaður í Eyjafjarðarsveit, unnið að gerð kynningarefnis fyrir SamNor - samráðsvettvang framhaldsskóla á Norðurlandi eystra og var afrakstur þeirrar vinnu frumsýndur á Laugum í Reykjadal sl. miðvikudag. Bæði er um að ræða sameiginlegt kynningarmyndband fyrir alla skólana og hins vegar myndbönd fyrir hvern fimm framhaldsskólanna. SamNor skólarnir eru Framhaldsskólinn á Húsavík, Framhaldsskólinn á Laugum, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllaskaga og Verkmenntaskólinn á Akureyri.

Vinnsla þessa kynningarefnis hófst strax í upphafi haustannar. Efni var tekið upp í skólunum og síðan tók úrvinnsla efnisins við. Verkefnið var styrkt af SSNE - Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra. Kynningarmyndböndin eru stutt en draga með skýrum hætti fram öflugt skólastarf á Norðurlandi eystra. Einnig sýna þau vel sérkenni og styrkleika hvers skóla. Myndböndin fara í opinbera sýningu áður en langt um líður.

Í myndböndunum segja nemendur skólanna frá námi sínu og starfi í skólunum, lífinu á heimavist o.fl. Víða er komið við enda skólarnir ólíkir og því frá mörgu að segja. Grunnhugmyndin með gerð þessara kynningarmyndbanda var einmitt að undirstrika hversu fjölbreytt og öflugt framhaldsskólasamfélag er á Norðurlandi eystra. 

Á meðfylgjandi mynd, sem var tekin við Framhaldsskólann á Laugum sl. miðvikudag, eru stjórnendur úr SamNor skólunum, nokkrir þeirra nemenda sem komu fram í kynningarmyndböndunum og stjórn og starfsfólk SSNE.