Fara í efni

Ný heimasíða VMA

Ný heimasíða Verkmenntaskólans á Akureyri er formlega opnuð í dag, 4. október, á 30 ára afmælishátíð skólans. Vefsíðan er sem fyrr sett upp í vefumsjónarkerfinu Moya sem Stefna á Akureyri hefur á sínum snærum.

Sigríður Huld Jónsdóttir, aðstoðarskólameistari, segir að í mars og apríl sl. hafi verið kannað hvaða upplýsingar nemendur sæktu helst á heimasíðu skólans og í ljós kom að þeir leituðu frekast að upplýsingum um starfsfólk skólans og skóladagatal. Upplýsingar úr þessari könnun hafi síðan verið nýttar til uppsetningar nýrrar heimasíðu.

Sigríður Huld segir að Stefna hafi hannað nýtt útlit síðunnar og sett hana upp í samstarfi við starfsfólk VMA og hún hafi verið hönnuð út frá snjallsímum en æ fleiri opna vefsíður í gegnum snallsíma, ekki síst yngri kynslóðin.

Aðstoðarskólameistari lætur þess getið að í framtíðinni muni skólanámsskrá VMA birtast á heimasíðunni, auk fjölmargra annarra upplýsinga, en óhætt má fullyrða að hún hefur að geyma gríðarlega stóran upplýsingabanka sem nýtist nemendum og fjölmörgum öðrum. Regluleg fréttaskrif verða hér eftir sem hingað til á heimasíðunni – til þess ætluð að gefa sem gleggsta mynd af því fjölbreytta starfi sem er dag hvern innan veggja VMA.