Fara í efni

Ný beygjuvél en sú gamla til Hafborgarútgerðarinnar

Hörður Óskarsson og tvíburarnir Ásbjörn og Þórólfur Guðlaugssynir. Hafborgarútgerðin færði málmiðnbr…
Hörður Óskarsson og tvíburarnir Ásbjörn og Þórólfur Guðlaugssynir. Hafborgarútgerðin færði málmiðnbraut VMA tvo Makita slípirokka.

Núna í byrjun annar fékk málmiðnbrautin í VMA nýja beygjuvél, sem er ein af þessum nauðsynlegu vélum í málmsmíði, bæði fyrir þá sem eru að taka sín fyrstu spor í málmsmíðinni og þá sem lengra eru komnir.

Þegar Hörður Óskarsson brautarstjóri á málmiðnbraut sá þá feðga sem gera út Hafborgina í Grímsey auglýsa á fésbókinni eftir notaðri beygjuvél hafði hann samband við þá og úr varð að gamla beygjuvélin hefur nú fengið nýtt hlutverk í útgerð Hafborgar.

Útgerð Hafborgar EA 152 er fjölskyldufyrirtæki og gaman er að segja frá því að þeir feðgar sem standa að útgerðinni hafa allir fengið sinn grunn í VMA. Útgerðarmaðurinn Guðlaugur Óli Þorláksson tók ákveðinn grunn á málmiðnbrautinni og vélstjórn og synirnir hafa fetað sömu slóð, Guðlaugur Óli Guðlaugsson og tvíburarnir Ásbjörn og Þórólfur Guðlaugssynir. Allir eru þeir feðgar því fyrrum nemendur Harðar Óskarssonar.

Í stað gömlu beygjuvélarinnar sem nýtist nú Hafborgarmönnum vel færðu þeir málmiðnbrautinni tvo nýja Makita slípirokka sem munu nýtast vel í kennslunni.

Þessar myndir voru teknar þegar þeir feðgar mættu á málmiðnbrautina færandi hendi og óku á brott með beygjuvélina. Einnig má sjá nýju beygjuvélina.