Fara í efni

Nú er lag að syngja í kór!

Guðlaugur og kórfélagar í Gryfjunni sl. þriðjudag.
Guðlaugur og kórfélagar í Gryfjunni sl. þriðjudag.

Enginn kór hefur verið starfandi í VMA sem auðvitað er miður því í um 1100 nemenda skóla er að sjálfsögðu mikill fjöldi söngfólks eins og hefur komið rækilega í ljós í árlegri Söngkeppni VMA.

Í Menntaskólanum á Akureyri hefur lengi verið starfandi kór nemenda skólans og svo er einnig nú, undir stjórn Guðlaugs Viktorssonar.

Síðastliðinn þriðjudag kom Guðlaugur í heimsókn í Gryfjuna ásamt kórfélögum úr MA og tóku lagið. Guðlaugur hefur mikinn áhuga á því að efla kórinn sem mest hann má og þess vegna horfir hann til þess að mynda blandaðan kór nemenda MA og VMA.

Það eina sem áhugasamir og söngelskir nemendur í VMA þurfa að gera er að setja sig í samband við Guðlaug stjórnanda og/eða mæta einfaldlega á æfingar kórsins í Kvosinni í MA á mánudögum kl. 16:00-18:00 og miðvikudögum kl. 16:00-17:30. Nú er lag að pússa raddböndin og taka lagið!