Fara í efni

Nordplus verkefni í VMA - sjónum beint að málefnum aldraðra

Þáttakendur í verkefninu fyrir framan VMA.
Þáttakendur í verkefninu fyrir framan VMA.

Í liðinni viku var í VMA unnið að verkefninu Empowerment by innovation – elderly people included and happy. Þetta er Nordplus frumkvöðlaverkefni sem hófst með undirbúningsfundi í janúar Litháen í janúar árið 2019 sem við Íris Ragnarsdóttir sóttum af hálfu VMA. Á þessum fundi var lagður grunnurinn að verkefninu og unnin verkefnalýsing. „Verkefnið fjallar í stórum dráttum um hvernig unnt sé að gera líf minnihlutahópa af ýmsum toga í samfélaginu betra,“ segir Katrín Harðardóttir kennari.

Hér eru myndir sem Hilmar Friðjónsson kennari tók og hér eru myndir sem Katrín Harðardóttir kennari tók.

Fyrsti hluti verkefnisins var í Finnlandi undir lok árs 2019, annar í Svíþjóð í febrúar 2020 (rétt fyrir kóvid) og í síðustu viku var þráðurinn síðan tekinn upp aftur í verkefninu eftir heimsfaraldurinn og komu tuttugu nemendur til Akureyrar frá samstarfsskólum VMA í þessu verkefni í Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Litháen og Eistlandi. Með nemendunum í för voru kennarar frá skólunum. Af hálfu VMA tóku fjórir nemendur þátt í verkefninu og nokkrir kennarar, þar á meðal Katrín, Íris og Hálfdán Örnólfsson.

Í þessum hluta verkefnisins hér í VMA var sjónum beint að öldruðum í samfélaginu og hvernig væri hægt að gera líf þeirra fyllra og betra. Nemendur unnu í hópum og fóru í nýsköpunargírinn - settu fram hugmyndir að þjónustu eða vörum sem væru til þess fallnar að bæta líf aldraðra. Þessar hugmyndir voru síðan kynntar á lokadegi verkefnisins sl. fimmtudag og álitsgjafar (Helga Björg Jónasardóttir vöruhönnuður og kennari á listnáms- og hönnunarbraut og fulltrúi aldraðra, Sigrún Sveinbjörnsdóttir, sálfræðingur og fyrrv. kennari við Háskólann á Akureyri) lögðu mat á hugmyndirnar.

Síðastliðinn miðvikudag var efnt til ferðar þátttakenda í Mývatnssveit og til Húsavíkur og í þeirri ferð voru einnig nokkrir eldri borgarar af svæðinu. Í ferðinni gafst nemendum tækifæri til þess að fá fram sjónarmið eldra fólksins um líf þess og hvaða væntingar það hefði um lífið á efri árum.

Samstarf þessara skóla, í það minnsta hluta þeirra, á sér mun lengri sögu en frá 2019 og hafa þeir unnið að ýmsum ólíkum samstarfsverkefnum í gegnum tíðina. „Við í VMA höfðum áður verið í samstarfi við skólana í Finnlandi, Svíþjóð og Eistlandi í mörgum verkefnum,“ segir Katrín.

Næsti áfangi í verkefninu verður í Eistlandi í nóvember nk. og þangað fara fjórir nemendur úr VMA auk kennara. Á næsta ári verða heimsóknir til Danmerkur og Litháen.