Fara í efni

Nöfn fimm frumsaminna laga í einu myndverki

Axel Flóvent Daðason við verk sitt, Forest Fires.
Axel Flóvent Daðason við verk sitt, Forest Fires.

Axel Flóvent Daðason lýkur námi af myndlistarkjörsviði listnámsbrautar í vor en eins og áður hefur verið greint frá hér á heimasíðunni hefur hann auk þess að skapa myndlist verið iðinn við kolann við að semja og flytja eigin tónlist.

Í akrílverki Axels, Forest Fires, sem nú hangir upp á vegg við austurinngang VMA og hann vann í MYL 504 á haustönn hefur hann sett saman í eitt myndverk nöfn laganna fimm eftir hann sem hann hyggst gefa út á smáskífu í Bretlandi síðar á þessu ári – en nöfn þeirra eru: Forest Fires, Dancers, Beach, Northern Lights og Nightlife.

„Það má kannski segja að andrúmsloftið, ef svo má segja, í þessu málverki sé eins og tónlistin mín er, á frekar rólegum nótum,“ segir Axel.

Eins og komið hefur fram hér á heimasíðunni  hefur Axel gert útgáfusamning við breskt fyrirtæki og þegar hefur eitt laga hans, Beach, verið gefið þar út á tónlistarveitu. Áfram verður haldið á þessu ári og Axel fer ekki leynt með að hugur hans stendur til þess að einbeita sér enn frekar að tónlistinni í framtíðinni. Þó segir hann að myndlistin muni ekki alveg víkja, enda sé góð tilbreyting og hvíld í því að færa sig reglulega á milli þessara listgreina. Þess vegna útiloki hann ekki að fara í frekara myndlistarnám í framtíðinni.