Fara í efni

Níutíu og þrír brautskráðust frá VMA í dag

Brautskráningarhópurinn. Mynd: Páll A. Pálsson
Brautskráningarhópurinn. Mynd: Páll A. Pálsson

Níutíu og þrír nemendur brautskráðust frá Verkmenntaskólanum á Akureyri í dag. Brautskráningin var að vanda í Menningarhúsinu Hofi. Veður og færð setti eilítið strik í reikninginn og því voru færri brautskráningarnemar og gestir viðstaddir brautskráninguna en ella. Þeim sem ekki komust á brautskráninguna gafst kostur á að fylgjast með henni í beinu streymi.

Skipting brautskráningarnema á brautir var eftirfarandi:

Rafvirkjun – 12 (þar af 4 með viðbótarnám til stúdentsprófs)
Vélstjórn – 2 (1 með B-réttindi og 1 með D-réttindi+stúdent)
Viðbótarnám til stúdentsprófs að loknu iðnnámi - 1
Iðnmeistarar – 27
Matartækni – 8
Bifvélavirkjun - 9 (þar af 3 með viðbótarnám til stúdentsprófs)
Félags- og hugvísindabraut (stúdentspróf) - 7
Fjölgreinabraut (stúdentspróf) - 11
Íþrótta- og lýðheilsubraut (stúdentspróf) - 2
Listnáms- og hönnunarbraut - myndlistarlína (stúdentspróf) - 7
Náttúruvísindabraut (stúdentspróf) - 1
Viðskipta- og hagfræðibraut (stúdentspróf) - 1
Sjúkraliðabraut – 5 (þar af 2 með viðbótarnám til stúdentsprófs)

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA flutti brautskráningarræðu þar sem henni var fyrst tíðrætt um ýmislegt er lýtur að undirbúningi brautskráningar.

„Það er órjúfanlegur hluti af aðventunni hjá okkur í VMA að undirbúa desemberútskrift. Á sama tíma og við erum að ljúka haustönn er jafnframt verið að undirbúa næstu vorönn. Það koma upp alls konar mál á þessum tíma sem þarf að finna lausnir á og skipulagið fer fram og til baka. Það koma upp mál sem varða líf og framtíð nemenda okkar. Námsframboðið á hverjum tíma hefur áhrif á samfélagið og skipulagið hefur líka áhrif á líf starfsfólks sem stundum veit ekkert hvaða áfanga það er að fara að kenna eftir tvær vikur. En alltaf er útskriftin á sínum stað í skipulaginu.  

Fyrir þessa útskrift held ég að ég hafi upplifað það sem sumir kalla covid-dofa eða covid-þynnku. Einhver dofi sem ég veit að þið flest hafið upplifað eftir heimsfaraldurinn. Undanfarnar útskriftir höfum við þurft að vera búin undir alls konar útgáfur af útskriftarathöfn og Þríeykið svokallaða sá meira og minna um að skipuleggja þetta fyrir okkur. Ég bara beið eftir uppskriftinni frá þeim og síðan var unnið með það. Ég beið svolítið núna og ekkert gerðist annað en það að ég starði á gátlistann um útskrift, hálf úrelt skjal sem minnti mig bara á að ég ætlaði að endurskoða það eftir síðustu útskrift og örugglega útskriftina þar áður líka. 

Svo kom boð um að hitta starfsfólkið í Hofi til að fara yfir þetta allt saman, hvort það væri eitthvað öðruvísi eða bara eins og venjulega. Auðvitað er það þannig, athöfnin er að mestu leyti eins og venjulega - bara nýr hópur útskriftarnemenda sem við þurfum að kveðja og horfa á eftir inn í framtíðina.  

Enn starði ég á gátlistann í síðustu viku, allir aðrir að gera það sem þarf að gera fyrir útskrift nema ég. Þessi liður sem segir að mánuði fyrir útskrift fari skólameistari að undirbúa ræðu. Já, einmitt. Fyrir helgi voru nemendur búnir að klára sitt, kennarar búnir að gefa einkunnir og skírteini nemenda tilbúin - þá kom að því að skólameistari undirritaði öll skírteini en lítið að gerast í ræðunni.  

Í gær blasti það við að ekki kæmist ég lengur undan þessu verkefni, það yrði að vera einhver ræða. Ég leita oft til samstarfsfólks, nemenda, vina og ættingja og bið um tillögur um hvað ég ætti að fjalla um í ræðunni. Nú, það er skemmst frá því að segja að algengasta svarið er; hvað, áttu ekki eitthvað frá því síðast, getur þú ekki bara verið með sömu ræðu og fyrir einhverjum árum síðan, það tekur enginn eftir því.  

Auðvitað hefur þetta fólk rétt fyrir sér, ég á gamlar ræður, get meira að segja gluggað í gamlar ræður frá Hjalta Jóni fyrrum skólameistara. En einhvern veginn þarf hver ræða að vera sérstök, sérstök fyrir þann nemendahóp sem er að útskrifast hverju sinni. Oftast hef ég einhverjar hugmyndir um innihaldið - og jú, ég nota aftur ákveðinn kafla í hverri ræðu.  

En í þetta sinn kallaði ekkert til mín. Ég upplifði ritstíflu sem hlýtur að vera martröð rithöfundanna sem þurfa að koma einhverju niður á blað. Nú eða tónskáldanna sem þurfa að semja lög en ekkert gerist. Ég get samt ekki gert eins og rithöfundurinn sem segist ekki ætla að taka þátt í bókaflóðinu þessi jólin eða lagahöfundurinn sem ætlaði nú ekki að vera með í Júróvision þetta árið. Ég var meira að segja orðin of sein að bjóða einhverjum öðrum í VMA að vera með ræðuna og hafði það ekki í mér að segjast bara vera veik og kæmi ekki á útskriftina. Það hlyti að reddast allt saman þótt skólameistari væri ekki á svæðinu. Sem hefði alveg verið raunin, ég veit það enda með frábært samstarfsfólk sem hefði rúllað þessu upp.  

Þegar ég var sjálf í námi og þurfti að læra undir próf fór það iðulega þannig að ég fór að gera eitthvað sem ekkert lá á að gera, t.d. að taka til enda alveg að koma jól eða vor. Svo í gær fór ég að taka til – ekki heima hjá mér heldur í vinnunni - fann einhverja kassa með pappírsgögnum sem átti eftir að fara yfir. Auðvitað lá á því að skoða þessi gögn enda búin að vera þolinmóð í meira en 20 ár í þessum kössum. En á meðan gat ég hugsað minn gang varðandi ræðuna.  

Í þessum kössum voru meira og minna gömul próf í alls konar áföngum sem tilheyrðu Stýrimannadeildinni sem einu sinni var til á Dalvík. Gögnin sögðu ákveðna sögu um skólaþróun og hve margt hefur breyst í námi og kennslu. En í þessum gögnum var lítið um skólalífið, skólabraginn og um þá nemendur og kennara sem höfðu verið þarna. Þau gögn eru örugglega til þótt þau hafi ekki verið í þessum kössum.   

Ég fór að hugsa um fólkið sem ég veit að bæði var þarna í námi og kenndi við deildina. Þetta var alls konar fólk sem byggði upp samfélag þar sem var vinátta, samkennd og hjálpsemi en það komu örugglega líka upp ýmis mál sem þurfti að leysa úr. Bara svona venjulegt líf með fólki að vinna að markmiðum sínum - og þarna var þetta bara í þessum kössum, gömul próf í íslensku, ensku, siglingafræði, heilsufræði, stærðfræði og ýmsu öðru en ekkert um fólkið. Ég varð því að ímynda mér lífið í kringum þessi gögn sem voru í þessum kössum.   

En hvert er ég að fara í þessum hugleiðingum? Jú, ég ákvað að skrifa um vináttuna. Vináttuna sem verður til í því samfélagi sem skóli er.  

Þið sem eruð hér á sviðinu hugsið einhvern tímann í framtíðinni örugglega ekki um hvernig prófið í íslensku var byggt upp eða hvort þið voruð spurð um hvíldarpúls eða ekki í heilsueflingu - eða hvað áfanginn hét og hve margar einingar hann var. Hvort áfanginn var í Moodle eða Innu eða hvort þið lásuð bókina sem var í námsáætluninni. Ég er nokkuð viss um að þetta verður samt allt þarna sem ykkar veganesti inn í framtíðina og í einhverju samhengi við það sem þið eruð að klára hér í dag -  en smáatriðin sem tilheyra áföngum, námi og kennslu verða örugglega gleymd. Smáatriðin sem bæði nemendur og kennarar eru uppteknir af í námsmati en gleymast mörg hver jafnharðan. Þið megið ekki misskilja mig, þetta skiptir allt máli í stóra samhenginu, í þekkingu og færni ykkar til framtíðar og því hvernig okkur hefur tekist til að tengja þekkinguna saman við hæfni ykkar. En þetta eru örugglega ekki þær minningar sem munu fyrst koma upp þegar þið hugsið til tíma ykkar í VMA. Það sem þið munið hugsa um eru minningar um fólk, samnemendur og starfsfólk skólans.  

Þegar ég hitti afmælisárganga sem gjarnan vilja koma og skoða gamla skólann sinn er strax farið að spyrja um ákveðna kennara eða starfsfólk. Fyrrum nemendur fara að segja frá atvikum þar sem nemendur og starfsfólk voru í aðalhlutverki en ekki endilega námið sem slíkt.  

Við sem höfum upplifað svona árgangahittinga vitum að við förum strax að spyrja hvert annað um þá sem eru ekki á svæðinu eða fáir hafa frétt af. Alltaf er einhver í hópnum sem veit hvað einhver annar er að gera. Fólk fer í gömlu vinahópana, fer meira að segja stundum að láta eins og það sé komið aftur í kennslustund með einhverjum kennara og ákveðnum nemendum. Sanna vináttan frá því að fólk var saman í skólanum kemur fram og fólk upplifir eitthvað sem iljar þeim um hjartarætur. Gleðin og oft þakklæti til þessa fólks sem átti samleið á sama tíma í skólanum. Bæði nemendur og kennarar. 

Ég er viss um það að við öll hér inni getum hugsað til baka og munum augnablik þar sem kennari breytti einhverju í lífi okkar, fékk okkur til að staldra við og hugsa, leiðbeindi okkur inn á svið sem voru okkur framandi, fékk okkur til að skilja eitthvað sem við höfðum ekki áttað okkur á og síðast en ekki síst sýndi okkur kærleika og umhyggju. Ég held því fram að kennarar séu einir sterkustu áhrifavaldar sem til eru. Í heimi sem er sífellt að breytast og áreitin eru mörg er hlutverk kennara afar mikilvægt. Kennarastarfið mun seint hverfa algjörlega inn í heim sjálfvirkni og snjallvæðingu þótt tæknin sé sannarlega að breyta kennsluháttum og skólastarfi. Allir skólar eru fullir af áhrifavöldum og kennarar eiga marga fylgendur.  

Hvað sem verður er það alltaf í okkar höndum að halda í mennskuna í tækniþróuðu samfélagi. Áhersla skólanna verður að vera meiri í þá átt að halda í tungumál okkar og menningu, efla samkennd og samvinnu, kenna meira um alþjóðlegt samfélag og mismunandi menningarheima, kenna umburðarlyndi og efla jafnrétti í víðum skilningi.  

Vinátta getur breytt lífi okkar og það oftast til góðs. Að eiga góða vini sem tekur vinum sínum eins og þeir eru getur verið huggun þegar eitthvað bjátar á hjá okkur. Við lærum svo margt í mannlegri hegðun í gegnum vini okkar. Samkennd, hjálpsemi, finna að það sé einhver sem þarf á manni að halda en líka hvernig við getum tekist á við mótlæti því það reynir alltaf á sanna vináttu einhvern tímann. Það koma upp árekstrar og mótlæti og þá þurfum við að kunna að takast á við það. Við þurfum að læra að taka öðru fólki – líka vinum okkar – eins og það er.  

Vinátta er okkur öllum afar mikilvæg og hún er svo margt í okkar daglega lífi. Samskipti við annað fólk nærir okkur en getur líka verið að éta okkur upp ef við eigum í erfiðum samskiptum. Lífið er og verður alltaf þannig að við munum eiga góða daga og erfiða daga. Það hvernig við byggjum upp samskipti og vináttu við annað fólk verður ekki kennt í skólastofu eingöngu. Við lærum mannleg samskipti með því að umgangast annað fólk og þannig verður vinátta til.  

Þessi samskipti og vináttu var ekki hægt að sjá í þessum gömlu kössum sem ég talaði um áðan en ég er nokkuð viss um að einhvers staðar þarna í pappírnum, möppunum og rykinu varð til vinátta sem enn er til staðar.  

Mörg okkar þekkja sögurnar um Bangsímon og vini hans. Sjálf las ég þessar sögur sem barn og seinna fyrir börnin mín. Það eru til margar tilvitnanir úr Bangsímon-sögunum og viðeigandi að enda þessar hugleiðingar um vináttuna með einni: Einhvern tímann voru þeir félagar Bangsímon og Gríslingur á gangi í skóginum. „Hvaða dagur er í dag?“ spurði Bangsímon. „Nú, dagurinn í dag,“ svaraði Gríslingur. Þá sagði Bangsímon: „Allir dagar með þér eru uppáhaldsdagurinn minn. Svo dagurinn í dag er uppáhaldsdagurinn minn.““  

Sigríður Huld sagði að þrátt fyrir samkomutakmarkanir framan af ári hafi ýmsu verið áorkað í félagslífinu í skólanum. Leikfélag VMA hafi t.d. náð að setja upp söngleikinn Lísu í Undralandi á vorönn og einnig hafi verið unnt að halda árshátíð nemenda. Núna á haustönn hafi verið hægt að halda uppi eðlilegu félagslífi með ýmsum uppákomum, æfingar á farsanum Bót og betrun séu í fullum gangi o.fl.

Og ýmislegt annað úr skólastarfinu nefndi Sigríður í ræðu sinni:

„Nemendur okkar hafa gert það gott í ýmsum keppnum á árinu. Nemendur á viðskipta- og hagfræðibraut tóku t.d. þátt í JA Iceland, árlegri vörumessu framhaldsskólanemenda sem stofna fyrirtæki og kynna vöru sína. Vörumessan var haldin í Smáralind. Á vorönn verður vörumessa haldin hér á Akureyri og að sjálfsögðu taka nemendur VMA þátt í þeirri keppni.  

Tveir nemendur VMA, þau Theódóra Reykjalín Kristínardóttir og Víkingur Þorri Reykjalín Sigurðsson, komust áfram í stærðfræðikeppni framhaldsskólanema og hlaut Víkingur 1. sætið í forkeppninni. Úrslitakeppnin fer svo fram á vorönn. Nemandi okkar hán Mars Baldurs vann ritlistasamkeppni Ungskálda 2022 með skemmtilegri smásögu um þágufallssýki, þann stórhættulega sjúkdóm. Þá hlutu þær Hildur Salína Ævarsdóttir og Harpa Birgisdóttir tilnefningu til Íslensku menntaverðlaunanna 2022 fyrir framúrskarandi iðn- og verkmenntun fyrir áhugaveða nálgun og frumkvöðlastarf í vinnustaðanámi.  

Nemendur í háriðn sýndu hárgreiðslu og klippingu á sýningu á Glerártorgi nú í haust og hér hafa verið haldin nokkur sveinspróf á árinu, t.d. í háriðn, pípulögnum, húsasmíði og vélvirkjun. 

Allir nemendur sem útskrifast frá VMA gera lokaverkefni og eru þær margar hugmyndirnar sem hafa komið fram á þessu ári. Mörg af þessum lokaverkefnum reyna á samstarf, sköpun og frumkvöðlahugsun sem oft og tíðum hefur leitt til frekari þróunar hjá nemendum eða þeim fyrirtækjum sem þeir hafa unnið verkefnin með. Ásamt því að skapa áhuga á ákveðnum viðfangsefnum sem leiða nemendur áfram inn í frekara háskólanám.  

Erlent samstarf fór af stað af fullum krafti að loknu covid sl. vor Nemendur tóku virkan þátt í þeim verkefnum og nemendur fá mörg tækifæri í gegnum erlent samstarf. Nemendahópur í háriðn var við nám í tvær vikur á Malaga á Spáni, nemendur og kennarar í rafiðn tóku þátt í verkefni í Istanbúl, tóku á móti nemendum frá samstarfslöndunum hér á Akureyri og hittu félaga sína á Kanaríeyjum nú í haust. Nokkrir nemendur útskrifast í dag sem hafa tekið þátt í verkefninu Ready for the World og hafa bæði tekið á móti erlendum nemendum hér á Akureyri og farið til Danmerkur og Hollands. Það eru til nokkrar sturlaðar staðreyndir úr þeim ferðum. Nemendur og kennarar á matvælabraut fóru til Frakklands á vorönn þar sem frönsk matarmenning var tekin út og síðan tóku nemendur og kennarar á móti frönsku nemendunum í apríl. Viðeigandi nafn á því verkefni er Rotten Shark and Aioili, enda fjallað um matarmenningu beggja landa.
Í erlendu samstarfi fær starfsfólk jafnframt tækifæri til starfsþróunar, bæði með því að taka þátt í ýmsum þróunarverkefnum og með heimsóknum í aðra skóla.  

Að vanda tók VMA á móti mörgum einstaklingum og hópum á þessu ári til þess að kynna sér skólastarfið í VMA og á Íslandi. Til Akureyrar komu á annað hundrað manns á árinu í gegnum hin ýmsu verkefni sem VMA tekur þátt í og hátt í hundrað nemendur og starfsmenn skólans hafa farið erlendis á árinu.

Það er því sannarlega af nógu af taka í VMA og þetta er alls ekki tæmandi listi yfir það fjölbreytta og frábæra starf sem starfsfólk og nemendur vinna að á hverri önn.“  

Í lok ræðu sinnar beindi Sigríður Huld orðum sínum að brautskráningarnemum og sagði þá eiga að vera stolta á brautskráningardegi og horfa björtum augum til framtíðar. „Verið trú landi ykkar og uppruna og farið vel með móðurmálið ykkar. Berið virðingu fyrir fjölskyldum ykkar og vinum og öllu því fólki sem verður á vegi ykkar í framtíðinni. En berið fyrst og fremst virðingu og umhyggju fyrir ykkur sjálfum og þeim verkefnum sem þið takið að ykkur í framtíðinni.“  

Og til starfsfólks VMA beindi Sigríður Huld þessum orðum:  

„Nú í kjölfar heimsfaraldurs hefur mætt mikið á ykkur í kennara- og starfsmannahópnum við að ná markmiðum okkar með nemendum. Tvö ár í óvissu, sóttkví og einangrun höfðu mikil áhrif á allt skólastarfið en með samstöðu gekk skólastarfið upp. Nú hefur uppbygging nemenda tekið við og vinna okkar allra hefur breyst til frambúðar. Þessum verkefnum hafa fylgt áskoranir á mörgum sviðum og ekki síst nýjar nálganir gagnvart nemendum og breyttu samfélagi.  

Að stjórna skóla eins og VMA er ekki einnar konu verk, samheldinn starfsmannahóp þarf líka til og það er þakkavert að vinna með starfsmannahópnum í VMA. Ég er afar stolt af samstarfsfólki mínu fyrir fagmennsku þess og umhyggju fyrir nemendum og þeim gildum sem skólinn stendur fyrir. Kærar þakkir öll fyrir samstarfið á árinu.“   

Sem fyrr segir brautskráðust 93 nemendur í dag með 103 skírteini því tíu nemendur útskrifuðust með tvö skírteini. Á þessu ári hefur VMA útskrifað 232 nemendur með 266 skírteini en 139 nemendur voru útskrifaðir í maí sl.

Um brautskráninguna í dag sáu Ómar Kristinsson, sviðsstjóri stúdentsprófsbrauta og fjarnáms, og Anna María Jónsdóttir, sviðsstjóri iðn- og starfsnáms.

Tónlistaratriði brautskráningarinnar var í höndum Hafdísar Ingu Kristjánsdóttur, nemanda á félags- og hugvísindabraut VMA. Hún söng lagið Ein handa þér eftir Eros Ramazzotti við texta Stefáns Hilmarssonar. Samhliða námi sínu í VMA stundar Hafdís Inga nám við Tónlistarskólanum á Akureyri þar sem hún leggur áherslu á söng. 

Fimm nemendur fengu blómvendi frá skólanum fyrir mikilsvert framlag þeirra til félagslífs á námstímanum: Aðalheiður Agnes Hermannsdóttir, Eyrún Arna Ingólfsdóttir, Júní Sigurðarbur, Sigríður Erla Ómarsdóttir og Þórdís Ómarsdóttir.

Helena Valdís Bergland Traustadóttir, sjúkraliði og nýstúdent, flutti ræðu fyrir hönd útskriftarnema.