Fara í efni

Níu nemendur í kjötiðn

Rúnar Ingi Guðjónsson, gæðafulltrúi í Kjarnafæði-Norðlenska, og kennari í kjötiðn í VMA, leiðbeinir …
Rúnar Ingi Guðjónsson, gæðafulltrúi í Kjarnafæði-Norðlenska, og kennari í kjötiðn í VMA, leiðbeinir einum af kjötiðnnemunum, Elínborgu Bessadóttur.

Kjötiðn er ein af námsgreinunum sem falla undir matvælabraut VMA og er kennd sem lotunám við VMA. Þessi iðngrein er kennd þegar nægur fjöldi umsækjenda er um hana. Nú stunda níu nemendur nám í kjötiðn í VMA, átta þeirra eru búsettir hér norðan heiða en einn syðra.

Í starfi kjötiðnaðarmanns fellst að vinna og pakka kjöti og kjötréttum fyrir neytendur, setja upp kjötborð og þjónusta viðskiptavini. Hann starfar meðal annars í kjötvinnslum, verslunum, sláturhúsum og við matvælasölu. Kjötiðn er löggilt iðngrein.

Við upphaf náms þurfa nemendur að vera á samningi í faginu - og því eru allir nemendur í starfi jafnhliða því sem þeir stunda námið í lotum. Kjötiðn er verklegt og bóklegt fagnám sem lýkur með sveinsprófi á 3. hæfniþrepi. Námið er 288 einingar og eru 88 einingar þess í skóla og 200 einingar eru á viðurkenndum starfsnámsstöðum sem hafa rétt til að taka nemendur á námssamning. 

Við lok þessarar vorannar útskrifast hluti þeirra kjötiðnnema sem nú stundar námið í VMA en aðri nemendur síðar.

Á dögunum voru kjötiðnnemar með verklega æfingu í húsnæði matvælabrautar VMA þar sem þeir voru að æfa sig að úrbeina lambaskrokka og útbúa síðan úr þeim tilbúna steikur eða rétti.