Fara í efni

Fundað í netheimum um verkefni í viðburðastjórnun

Hera, Svava, Katla og Kristrún á fjarfundi.
Hera, Svava, Katla og Kristrún á fjarfundi.

Í covid-ástandinu þurfa kennarar og nemendur að hugsa hlutina á margan hátt upp á nýtt, ekki síst í bóklegum áföngum sem hafa verið síðustu vikur í fjarnámi. Í áfanga í viðburðastjórnun, sem Sunna Hlín Jóhannesdóttir kennir, var farin leið fjarfundatækninnar í hópavinnunni. Nemendur hafa unnið í nokkrum minni hópum og þeir bera saman bækur sínar á fjarfundum og vinna í sameiginlegum skjölum. Hera Jóhanna Heiðmar Finnbogadóttir, nemandi á viðskipta- og hagfræðibraut, og Svava Rún Þórhallsdóttir, Katla María Kristjánsdóttir og Kristrún Lilja Sveinsdóttir, sem allar eru á íþrótta- og lýðheilsubraut, eru nú að leggja lokahönd á lokaverkefni sitt í viðburðastjórnun sem felst í skipulagningu og utanumahaldi á ímynduðum viðburði innan VMA. Viðfangsefni þeirra er árshátíð VMA, sem hefur verið skoðuð frá ýmsum hliðum. Lokaverkefninu skila þær í formi ítarlegrar skýrslu.

Þær stöllur segja að þeim hafi gengið vel að vinna þetta verkefni með þessum hætti og ekki hafi komið upp nein óyfirstíganleg vandamál í þeirra vinnu. Vissulega sé vinnufyrirkomulagið nokkuð frábrugðið því sem hefði verið ef dagskólinn hefði verið með eðlilegum hætti. En því sé ekki að heilsa og því hafi verið unnið út frá þeim aðstæðum sem uppi séu – og það hafi gengið ágætlega.

En þegar rætt er almennt um fjarnámið segja þær að vissulega sé farið að gæta töluverðrar þreytu hjá nemendum að sitja daginn út og inn við tölvu. Nemendur sakni þess að komast ekki í skólann og hitta samnemendur og kennara. Þær eru sammála um að  fjarnámið töluvert meiri vinna en að sækja kennslustundir í skólanum. Í stað þess að vinna verkefni að hluta til í kennslustundum og fengið þar svarað ýmsum spurningum hafi öll verkefnavinnan færst heim – og jafnframt hafi verkefnum fjölgað töluvert frá því sem áður var.