Fara í efni

Nemendur í viðburðastjórnun í heimsókn í Hofi

VMA-nemendur og Kristín Sóley í Hofi. Mynd: PG.
VMA-nemendur og Kristín Sóley í Hofi. Mynd: PG.

Það er ekki lítið mál að halda utan um starfsemi húss eins og Menningarhússins Hofs á Akureyri. Því fengu nemendur í valáfanga í VMA um viðburðastjórnun að kynnast þegar þeir heimsóttu Hof sl. þriðjudag ásamt kennara sínum, Pétri Guðjónssyni.

Kristín Sóley Björnsdóttir, viðburðastjóri hjá Menningarfélagi Akureyrar, tók á móti hópnum og sagði honum frá hinni fjölbreyttu starfsemi í Hofi, sem eins og kunnugt er samanstendur af fjölda tónleika, listsýninga, ráðstefna, funda, árshátíða o.s.frv. Að ógleymdu því nýjasta í Hofi, sem hefur verið að sækja mjög í sig veðrið, sem er að nýta húsið sem upptökuhljóðver fyrir m.a. kvikmyndatónlist.

En ekki aðeins Hof er undir hatti Menningarfélags Akureyrar, það er líka Samkomuhúsið á Akureyri, gamla góða leikhúsið undir brekkubrúninni, þar sem t.d. Leikfélag VMA sýndi Litlu hryllingsbúðina sl. vetur. Nóg verður um að vera í Samkomuhúsinu í vetur, sem endranær, og styttist í fyrstu frumsýningu á glænýju íslensku verki félaganna í Hundi í óskilum, sem þeir kalla „Kvenfólk“.