Fara í efni

Nemendur í viðburðastjórnun styrkja dag- og göngudeild geðsviðs SAk

Fulltrúar SAk og nemendur í viðburðastjórnun.
Fulltrúar SAk og nemendur í viðburðastjórnun.

Í gær afhentu nemendur í viðburðastjórnun fulltrúum geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri 65 þúsund krónur sem söfnuðust í tengslum við íþróttadaginn fyrr á þessari önn.

Eins og fram hefur komið var íþróttadagur VMA haldinn 7. nóvember sl. að frumkvæði nemenda í áfanganum viðburðastjórnun, sem Sunna Hlín Jóhannesdóttir kennir. Dagurinn var annars vegar íþróttakeppni milli nemenda VMA og Framhaldsskólans á Laugum í Reykjadal og hins vegar var hann hugsaður til þess að styðja við gott málefni. Nemendurnir völdu að styðja við starfsemi dag- og göngudeildar geðsviðs Sjúkrahússins á Akureyri og söfnuðust 65 þúsund krónur af veitingasölu á íþróttadeginum. Verkefninu lögðu lið fyrirtækin Salatsjoppan, Kexsmiðjan, Dominos og MS Akureyri og vilja nemendur koma á framfæri innilegu þakklæti til þeirra fyrir stuðninginn.

Ástæðan fyrir því að nemendur völdu að styðja við starfsemi geðdeildar SAk er eftirfarandi: „Við völdum þetta mikilvæga málefni vegna þess að geðheilsa ungs fólks skiptir máli og við vildum opna aðeins umræðuna af því að geðheilsa unglinga er slæm og það er alls ekki sjálfgefið að fá hjálp, þessar stofnanir þurfa fjármagn fyrir sína starfsemi og við vildum leggja okkar af mörkum til að hjálpa til.“

Í gær komu þrír fulltrúar geðsviðs SAk, Árni Jóhannesson, yfirlæknir dag- og göngudeildar geðsviðs, Helgi Garðar Garðarsson, forstöðulæknir geðlækninga, og Valborg Lúðvíksdóttir, staðgengill deildarstjóra, í kennslustund í viðburðastjórnun í VMA og veittu styrkuphæðinni viðtöku úr hendi Arndísar Evu Erlingsdóttur, fyrir hönd nemenda í viðburðastjórnunaráfanganum, en hluti nemenda í áfanganum var í kennslustundinni í gær. Þökkuðu Árni, Helgi Garðar og Valborg nemendum fyrir þetta góða framtak og hlýhug í garð dag- og göngudeildar. Augljóst væri að umræða ungs fólks um þessi mál væri opin, sem væri mjög mikilvægt. Þessir fjármunir nýtist vel og hugmyndin sé að nýta þá til kaupa á einhverjum hlut sem komi að góðum notum á dag- og göngudeild geðsviðs SAk.