Fara í efni

Nemendur í grunnnámi matvæla- og ferðagreina efndu til foreldraboðs

Lokahönd lögð á skreytingu eftirréttarins.
Lokahönd lögð á skreytingu eftirréttarins.

Að kvöldi síðasta vetrardags efndu kennarar og nemendur í grunnnámi matvæla- og ferðagreina til árlegs boðs fyrir foreldra nemenda þar sem á borðum var þríréttaður kvöldverður sem nemendur elduðu og framreiddu. Nemendur stóðu sig með miklum glæsibrag og var kvöldið í alla staði hið ánægjulegasta.

Tekið var á móti gestum með fordrykk sem var bláberjasaft blandað með gosdrykknum sprite. Síðan var gestum boðið til sætis í húsnæði matvælabrautarinnar.  Í forrétt var boðið upp á rækjukokteil með nýbökuðu brauði, í aðalrétt var hægeldaður lambainnanlærisvöðvi með kryddhjúp, tómat-basilsósu, soðbakaðri kartöflu og rótargrænmeti. Í eftirrétt  var borinn fram Panna cotta með karamellusósu og hindberja „coulis“. Og með eftirréttinum var boðið upp á kaffi og te.

Í máli Marínu Sigurgeirsdóttur, kennara og brautarstjóra grunndeildar matvæla- og ferðagreina, kom fram að þetta árlega foreldraboð væri einskonar uppskeruhátíð nemenda undir lok seinni annar grunnnámsins. Gaman væri fyrir nemendur að geta sýnt foreldrum sínum hvað þeir hafi lært í matreiðslu og framreiðslu frá því sl. haust.

Tveir nemendur stigu á stokk og rifjuðu upp hvað þeir hefðu gert í vetur og eins og vera ber gerðu þeir einnig grín að sjálfum sér og kennurum.

Hér má sjá myndir sem voru teknar á foreldrakvöldinu sl. miðvikudagskvöld.