Fara í efni

Nemendur hafa áhyggjur

Jakob Þór Þórðarson og Árný Kristjánsdóttir.
Jakob Þór Þórðarson og Árný Kristjánsdóttir.
Af samtölum við nemendur VMA má ráða að almennt er mikill uggur í þeim eins og framhaldsskólanemendum um allt land komi boðað verkfall framhaldsskólakennara til framkvæmda nk. mánudag.

Af samtölum við nemendur VMA má ráða að almennt er mikill uggur í þeim eins og framhaldsskólanemendum um allt land komi boðað verkfall framhaldsskólakennara til framkvæmda nk. mánudag.

„Nemendur tala eðlilega mikið um þetta sín í milli og hafa miklar áhyggjur, vita ekki hvað bíður þeirra ef kemur til verkfalls,“ segir Grenvíkingurinn Jakob Þór Þórðarson, sem er á þriðja ári á íþróttabraut. Hann segist hafa það sterklega á tilfinningunni að verkfall skelli á og því fylgi mikil óvissa og vanlíðan. „Ég reikna með að vinna eitthvað ef verkfall skellur á og það dregst á langinn, en ég ætla mér að reyna að lesa námsbækurnar eins og kostur er,“ segir Jakob Þór, sem starfar sem pizzusendill á Greifanum með skólanum. Árný Kristjánsdóttir frá Blönduósi, sem er á þriðja ári á náttúrufræðibraut VMA, tekur undir með Jakobi að hún hafi miklar áhyggjur af því ef til verkfalls kemur. Hún segist vera nýbúin að fá vinnu hjá Gallup með skólanum, en almennt sé mjög erfitt fyrir ungt fólk að fá vinnu á Akureyri um þessar mundir og því sjái hún ekki fyrir sér að nemendur á Akureyri eigi auðvelt með að fá vinnu í verkfalli, komi til þess.

„Það er alveg ljóst að ég kem til með að fylgjast vel með fréttatímunum um helgina,“ segir Jakob Þór og Árný tekur undir það.