Fara í efni

Nemendur fengu kynningu á háskólanámi

Nemendur voru áhugasamir á háskólakynningunni.
Nemendur voru áhugasamir á háskólakynningunni.
Hinn árlegi háskóladagur í VMA var í gær og þar kynntu allir háskólarnir sjö námsframboð sitt og hvað þeir hefðu upp á að bjóða. Að venju nýttu nemendur vel þetta tækifæri, spurðu margs og fengu útskýringar á ýmsu sem þeir hafa velt fyrir sér. 
 
Háskólarnir sjö sem kynntu starfsemi sína í gær eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Listaháskólinn og Háskólinn í Reykjavík. Einnig kynnti háskólinn í Skövde í Svíþjóð hvað hann hefði upp á að bjóða.
 
Að sögn talsmanna skólanna sem voru að kynna þá í VMA í gær er afar misjafnt hvort nemendur sem eru að ljúka framhaldsskóla hafa mótaðar hugmyndir um hvað þeir ætli að leggja fyrir sig að loknum framhaldsskóla. En þeir voru þó sammála um að bróðurpartur nemenda væri að þreifa fyrir sér og hefði ekki fullmótaðar hugmyndir á þessu stigi málsins um hvaða nám yrði fyrir valinu. Fyrir einmitt þessa nemendur eru slíkar háskólakynningar afar nauðsynlegar. 
 
Liður í kynningu Háskólans á Akureyri var að kynna nýjasta tækniundur á þeim bæ sem er svokölluð Fjærvera - fjarstýrt fjarkennsluvélmenni. Eftir því sem best er vitað er HA fyrsti vinnustaðurinn hér á landi sem tekur slíka tækni í notkun. Í Landanum á RÚV nýverið var fjallað um þessa tæknibyltingu sem án nokkurs vafa á eftir að ryðja sér til rúms í auknum mæli í framtíðinni.