Nemendur byggingadeildar fá hlífðarfatnað og persónuhlífar
Það er orðinn fastur liður að nemendur grunndeildar byggingagreina í VMA fái afhentan vinnufatnað og persónuhlífar á fyrstu önn sinni í skólanum. Í gær mátuðu nemendur vinnufatnaðinn þannig að hægt væri að fá hann í réttum stærðum fyrir alla 37 grunndeildarnemana. Fatnaðurinn verður síðan merktur áður en nemendur fá hann afhentan. Þetta er viðamikill pakki sem samanstendur af stuttermabol, hettupeysu, vinnujakka, smíðabuxum, öryggisskóm, heyrnarhlífum, hlífðargleraugum, hjálmi og rykgrímu.
Þennan stóra fata- og persónuhlífapakka fá nemendur gegn vægu verði en Verkmenntaskólinn sem og Byggiðn – félag byggingamanna greiða hann umtalsvert niður og einnig veita Sandblástur og málmhúðun - FerroZink og birgjar ríflegan afslátt af þessum búnaði og gera nemendum kleift að eignast hann á þessum góðu kjörum.
Eitt af þeim grunnatriðum sem farið er rækilega yfir með nemendum strax á fyrstu vikum námsins eru öryggismálin því fjölmargt getur farið úrskeiðis ef öryggis er ekki gætt í hvívetna. Skólinn gerir kröfu um að allir séu í öryggisskóm og noti viðhlítandi öryggishlífar á verkstæði byggingadeildar, við smíði frístundahúsa utan dyra og í heimsóknum nemenda á vinnustaði utan skólans. Fatnaðinn geta nemendur geymt í læstum skápum sem þeir hafa aðgang að í byggingadeild.
Þetta er ómetanlegur stuðningur Byggiðn og Ferrozink og birgja við byggingadeild VMA og nemendur hennar sem ber að þakka af heilum hug.