Fara í efni

Nemendur á listnáms- og hönnunarbraut VMA heimsóttu Salpaus í Finnlandi

Fulltrúar VMA - nemendur og kennarar -  í Lahti í Finnlandi.
Fulltrúar VMA - nemendur og kennarar - í Lahti í Finnlandi.

Tólf nemendur á öðru ári listnáms- og hönnunarbrautar VMA og kennararnir Borghildur Ína Sölvadóttir, Björg Eiríksdóttir og Jóhann H. Þorsteinsson heimsóttu Salpaus framhaldsskólann í Lahti í Finnlandi fyrr í þessum mánuði, nánar tiltekið dagana 13. til 17. október, og unnu þar að hönnun af ýmsum toga þar sem áherslan var m.a. á miðlun og sviðslistir. Ferðin var styrkt af Erasmus+ styrkjaáætlun ESB.

Borghildur Ína og Véronique Legros, kennarar við listnáms- og hönnunarbrautina, heimsóttu Salpaus fyrr á þessu ári og kynntu sér starfsemi skólans til þess að geta lagt betur línur með heimsókn nemendanna núna í október. Þó svo að VMA sé stór verknámsskóli á íslenskan mælikvarða er Salpaus margfalt stærri. Ekki aðeins er skólinn í Lahti, í nágrannabænum Heinola er hann til dæmis með öfluga námsbraut í miðlun (media) þar sem m.a. er kennd ljósmyndun og grafísk hönnun.

Um var að ræða vikuferð, lagt var af stað frá Akureyri 11. október og komið aftur heim 18. október. Nemendur VMA unnu að hinum ýmsu verkefnum í Salpaus í Lahti og einnig var farið í Salpaus skólann í nágrannabænum Heinola.

„Nemendur unnu að verkefnum sínum í Salpaus í Lahti. Við felldum þessa ferð inn í áfanga nemendanna í skúlptúr sem þeir taka í námi sínu í VMA og því fólst vinna þeirra úti í því að vinna þrívíð verk sem yrðu síðan í vikulokin mynduð, bæði teknar ljósmyndir og myndbönd. Tilgangurinn með ferðinni var fyrst og fremst að kynna fyrir nemendum okkar fjölbreyttari handverksaðferðir og miðla en við höfum möguleika á að kenna þeim hér heima. Við gerðum verkefnalýsingu og nemendur fengu tækifæri til þess að vinna á fjórum verkstæðum sem Salpaus er með en við höfum ekki sambærilega aðstöðu hér heima. Nemendur voru bæði að vinna með nýjan miðil og skapandi verkefni á sama tíma, með öðrum orðum þurftu nemendur að láta fjórar mismunandi aðferðir eða miðla ganga upp í einu lokaverki sem yrði síðan myndað. Þetta var því heilmikil og krefjandi vinna fyrir nemendur en þeir stóðu sig frábærlega vel. Við skiptum þessum tólf nemendum í fjóra þriggja nemenda vinnuhópa sem fóru á milli fjögurra verkstæða og þar tóku finnskir nemendur við þeim og leiðbeindu þeim. Móttökur finnsku nemendanna voru einstaklega góðar og allt skipulag heimsóknarinnar var til mikillar fyrirmyndar.
Í einni af þeim deildum sem nemendur unnu sín verkefni er kennd leikmunagerð, önnur deildin er kölluð fashion technology, þriðja deildin er interior design og fjórða deildin er fyrir nám í húsgagnabólstrun.
Undir lok vikunnar fórum við í rútu frá Lahti til Heinola, sem tók um 45 mínútur, þar sem verkin sem nemendur unnu í Lahti voru mynduð frá ýmsum sjónarhornum. Einnig fengum við kynningu á skólanum í Heinola. Fyrirfram vorum við ekki viss um að nemendur næðu að ljúka við verk sín á þessum skamma tíma í Lahti en reyndin varð önnur, nemendur nýttu tíma sinn afar vel og náðu allir að klára verk sín sem síðan voru mynduð í Heinola,“ segir Borghildur Ína.

Á vorönn 2026 er síðan von á nemendum frá Salpaus til Akureyrar og verða þeir hér í fjórar vikur í starfsnámi í fyrirtækjum og einnig sækja þeir kennslustundir í VMA.