Fara í efni

Nemendum boðið upp á opna tíma í íþróttasalnum

Nemendur geta nýtt sér aðstöðuna í íþróttasalnum.
Nemendur geta nýtt sér aðstöðuna í íþróttasalnum.
Frá og með þessari viku stendur nemendum til boða að nýta sér endurgjaldslaust aðstöðuna í íþróttasalnum í kjallara VMA. Nemendum verður frjálst að mæta í salinn kl. 15-17 á þriðjudögum og fimmtudögum og nýta sér þá fínu aðstöðu sem þar er í boði til þess að efla líkama og sál. Fyrsti opni tíminn er á morgun, þriðjudaginn 6. nóvember.
 
Valgerður Dögg Jónsdóttir kennari og forvarnafulltrúi skólans og Jóhann Gunnar Jóhannsson íþróttakennari segjast hafa fengið fyrirspurnir frá nemendum um þennan möguleika og því hafi verið ákveðið að bjóða upp á þetta. Þau minna á að VMA sé heilsueflandi framhaldsskóli  og liður í því sé að stuðla að reglulegri hreyfingu nemenda. 
 
Þess má síðan geta að föstudaginn 16. nóvember nk. kl. 13, á Degi íslenskrar tungu, verður efnt til bekkpressumóts í íþróttasalnum sem verður öllum opið, bæði nemendum og starfsmönnum VMA. Framkvæmd mótsins verður í höndum fagfólks í lyftingum frá KFA - Kraftlyftingafélagi Akureyrar.