Fara í efni

Nemendasýning í Mjólkurbúðinni

Sýningin er í Mjólkurbúðinni í Listagilinu.
Sýningin er í Mjólkurbúðinni í Listagilinu.

Um komandi helgi, á laugardag og sunnudag kl. 14 til 17 báða dagana, verða sýnd verk um tuttugu nemenda á öðru og þriðja ári listnáms- og hönnunarbrautar VMA í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri.

Slík sýning er nýmæli hjá listnáms- og hönnunarbraut en ástæðan fyrir því að þessi sýning er haldin núna er sú að sýningarrýmið í Mjólkurbúðinni var ónotað um helgina og boð kom til listnáms- og hönnnarbrautar hvort hún vildi nýta það fyrir nemendasýningu. Þessu boði var tekið fagnandi og niðurstaðan var sú að annars vegar nemendur Helgu Bjargar Jónasardóttur í skúlptúráfanga og hins vegar nemendur Bjargar Eiriksdóttur í málunaráfanga sýna verk sín. Nemendur ákváðu hvaða verk þeir vildu sýna og það kom í hlut Helgu og Bjargar að koma sýningunni fyrir í Mjólkurbúðinni. Það gerðu þær í gær og hér eru myndir sem voru teknar við það tækifæri. Eins og sjá má eru verkin mjög skemmtileg og úr öllum áttum.

Sem fyrr segir verður sýningin opin nk. laugardag og sunnudag og skiptast nemendur á að vera í Mjólkurbúðinni og fræða gesti um það sem fyrir augu ber.

Svo skemmtilega vill til að Ginnungagap - sýning á lokverkefnum nemenda á listnáms- og hönnunarbraut stendur yfir í Ketilhúsinu, einu af rýmum Listasafnsins á Akureyri. Síðustu sýningardagar eru einmitt um komandi helgi.

Listsköpun nemenda VMA er því heldur betur áberandi í Listagilinu þessa dagana.