Fara í efni

Nemendaráðskosningar nk. þriðjudag

Frambjóðendur til hinna fjölmörgu embætta.
Frambjóðendur til hinna fjölmörgu embætta.

Gengið verður til kosninga í ábyrgðarstörf í Þórdunu – nemendafélagi VMA næstkomandi þriðjudag, 12. apríl. Hátt í tuttugu manns hafa boðið sig fram til hinna ýmsu starfa – til stjórnarsetu í Þórdunu og í hinum ýmsu félögum í skólanum. Pétur Guðjónsson, viðburðastjóri VMA, fagnar þessum áhuga og segir hann mikilvægan og vera til marks um að nemendur hafi áhuga á öflugu félagslífi.

Ef horft er til nokkurra af umræddum störfum sem fólk hefur boðið sig fram í skal fyrst nefnd staða formanns Þórdunu. Í framboði til formanns er Kristján Blær Sigurðsson. Til varaformanns Þórdunu eru tvö framboð: Ólafur Göran Gros og Birkir Páll Elíason. Tveir hafa boðið sig fram í gjaldkera Þórdunu, Árni Þórður Magnússon og Karl Liljendal Hólmgeirsson. Eygló Ómarsdóttir býður sig ein fram í embætti ritara Þórdunu og sömuleiðis er Sindri Snær Konráðsson einn í kjöri til skemmtanastjóra Þórdunu. Tveir hafa hins vegar boðið sig fram í embætti kynningarstjóra Þórdunu, Steinar Logi Stefánsson og Patrekur Óli Gústafsson. Þá bjóða tvö sig fram í stöðu eignastjóra Þórdunu, Sævar Jóhannesson og Victoria Rachel Zamora. Eitt framboð er í formann hagsmunaráðs, frá Jöru Sól Ingimarsdóttur. Þá eru tvö framboð til embættis formanns Leikfélags VMA, frá Söru Rós Guðmundsdóttur og Freysteini Sverrissyni.

Næstkomandi mánudag, 11. apríl, verður kynning á frambjóðendum og er gert ráð fyrir lengdum löngufrímínútum af þeim sökum.  Og síðan verður gengið til kosninga á þriðjudaginn og verður kjörfundur frá kl. 08:15 til 16:10 í skólanum. Nánar upplýsingar um kosningarnar verða gefnar í skólanum. Ástæða er til að hvetja alla nemendur skólans til þess að taka þátt í kosningunum. Mikilvægt er að kjörsókn verði góð og nemendur sýni þannig í verki að mikilvægt sé að skólinn státi af öflugu félagslífi.