Nássið gefur góða raun
NÁSS – náms- og starfsfræðsla er áfangi sem nýnemar á tveimur námsbrautum í skólanum, starfsbraut og brautabrú, sækja núna á haustönn. Þessi áfangi er ætíð í boði á fyrstu önn nemenda á þessum brautum í skólanum og gengur út á, eins og nafn áfangans gefur til kynna, að kynna fyrir nemendum eitt og annað sem kennt er í skólanum.
Núna á haustönn fá nemendur kennslu/kynningu á matreiðslu/bakstri, framreiðslu, listnámi, námi á sjúkraliðabraut, málmiðnbraut og FabLab. Nemendum er skipt í hópa og er hver hópur í ákveðin mörg skipti á hverri námsstöð og síðan fer hann á næstu stöð – og svo koll af kolli.
NÁSS-áfanginn hefur verið í boði í mörg ár og hefur ætíð gefið mjög góða raun. Mörg dæmi eru um að nemendur hafi fundið sína fjöl í námi með þessum kynningum á ólíkum námsbrautum - og það er ekki síst tilgangurinn með þessum áfanga.
Þessar myndir voru teknar af nemendum í NÁSS-áfanganum í vikunni í eldhúsinu á matvælabraut. Að þessu sinni var m.a. á verkefnalista dagsins í kennslustund hjá Ara Hallgrímssyni að útbúa dýrindis hamborgara.