Fara í efni

Listnámið lagði línurnar

Freydís Björk Kjartansdóttir við akrílverkið sitt.
Freydís Björk Kjartansdóttir við akrílverkið sitt.

Þegar Freydís Björk Kjartansdóttir var á sínum tíma í 10. bekk Lundarskóla á Akureyri og var að velta vöngum yfir því í hvaða nám hún ætti að fara, var íþróttabraut VMA efst á listanum, ekki síst vegna áhuga hennar á íþróttum. Hún æfði fótbolta upp yngri flokkana með KA og spilar fótbolta enn þann dag í dag, nú með 1. deildarliði Hamranna á Akureyri. En niðurstaðan var þó sú að hún ákvað að fara á listnámsbraut VMA og hún segir að það hafi opnað dyr inn í nýjan heim. Stefnan sé á áframhaldandi nám sem á einn eða annan hátt tengist listsköpun.

Freydís Björk lýkur námi af listnámsbraut VMA í vor. Hún segir tímann í skólanum hafa verið afskaplega góðan og þroskandi. „Í gegnum tíðina hef ég átt auðvelt með að setja fram nýjar hugmyndir og það hefur einnig reynst mér nokkuð auðvelt að blanda saman litum,“ segir Freydís Björk og upplýsir að áfangi í vöruhönnun hafi kveikt í henni áhuga á að kynna sér hana betur. Vöruhönnun sé ein þeirra leiða sem hún hefur áhuga á að læra í framtíðinni, en hún gerir ráð fyrir að sækja um til að byrja með í Myndlistaskólanum í Reykjavík næsta haust og læra meira í myndlistinni áður en hún snýr sér mögulega að einhverju öðru, t.d. vöruhönnun eða grafískri hönnun. „Námið hér hefur algjörlega lagt línur um það sem ég kem til með að gera í framtíðinni,“ segir Freydís Björk.

Þessa akrílmynd gerði Freydís Björk í myndlistaráfanga sl. haust. Í verkinu er hún að vinna með manneskjuna og niðurstaðan er sú að enginn er fullkomin.