Fara í efni

Nálgast dönskuna með nýstárlegum hætti

Nemendur í DAN102.
Nemendur í DAN102.
Oft gefst vel að brjóta upp hina hefðbundnu kennslu og fara nýjar leiðir til þess að vekja áhuga nemenda. Þetta fengu nemendur í dönsku í áfanganum DAN102 að reyna á dögunum þegar kennslan var brotin upp með nýstárlegum hætti.

Oft gefst vel að brjóta upp hina hefðbundnu kennslu og fara nýjar leiðir til þess að vekja áhuga nemenda. Þetta fengu nemendur í dönsku í áfanganum DAN102 að reyna á dögunum þegar kennslan var brotin upp með nýstárlegum hætti.

Til umfjöllunar í dönskuáfanganum var almenn þekking á Danmörku. Til þess að brjóta upp kennsluna var settur upp ratleikur og fimmtán stöðvum með spurningum komið fyrir bæði innan veggja skólans og á lóð hans. Hér má m.a. sjá eina stöðina við aðaldyr skólans. Nemendur fengu kort af svæðinu, þurftu að finna stöðvarnar og svara spurningum sem þeir fundu á hverri stöð. Öll hjálpargögn voru leyfileg; símar og tölvur. 

„Þetta mæltist mjög vel fyrir hjá krökkunum,“ segir Árni Hrólfur Helgason dönskukennari.  Hann segir að með tilkomu internetsins og svokallaðri „globaliseringu“ undanfarin ár hafi mjög fækkað kvörtunum nemenda yfir dönskunni enda þekki flestir þeirra einhvern nákominn eða kunningjafólk annað hvort í námi eða vinnu á einhverju Norðurlandanna.  „Mér finnst því sem nemendur telji meiri not fyrir skandinavískt tungumál en á árum áður,“ segir Árni Hrólfur. Hann segir að hins vegar sé þekking nemenda á Danmörku mjög misjöfn. Flestir kannist þeir við Margréti drottningu og hafi vitneskju um stærð landsins og margir hafi farið í Tívolí og dýragarðinn í Kaupmannahöfn. En þegar hins vegar komi að landafræðinni og danskri pólitík vandist málið verulega.