Fara í efni

Myndlistin í brennidepli í þriðjudagsfyrirlestri Kristins G.

Kristinn G. Jóhannsson myndlistarmaður.
Kristinn G. Jóhannsson myndlistarmaður.

Í dag, þriðjudaginn 8. nóvember kl. 17-17.40, heldur Kristinn G. Jóhannsson, myndlistarmaðurþriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Önnur ævi af tveimur. Þar fjallar hann um sviptingarnar í málverkinu og rekur langan feril sinn í myndlistinni. Sýning Kristins, Málverk, stendur nú yfir í sölum Listasafnsins. Hér má sjá nokkur verkanna á sýningunni.

Kristinn G. Jóhannsson er stúdent frá MA 1956 og nam myndlist á Akureyri, Reykjavík og í Edinburgh College of Art. Hann lauk kennaraprófi árið 1962 og starfaði við kennslu og skólastjórn í tæpa fjóra áratugi.

Kristinn sýndi verk sín fyrst á sýningu á Akureyri árið 1954, en fyrsta sýning hans í Reykjavík var í Bogasal Þjóðminjasafnsins árið 1962. Á löngum listamannsferli hefur Kristinn sýnt verk sín á fjölmörgum sýningum.

Auk málverka liggja eftir Kristin teikningar og grafíkverk þar sem hann sækir efni í gamlan íslenskan útskurð og vefnað. Einnig hefur Kristinn myndskreytt fjölda bóka, m.a. Nonnabækur og þjóðsögur.

Þetta er síðasti þriðjudagsfyrirlestur ársins, en þeir hefja síðan göngu sína á nýjan leik í lok janúar á næsta ári.

Sem fyrr er ókeypis aðgangur á fyrirlestur Kristins í dag.

Að þriðjudagsfyrirlestrunum standa Listasafnið á Akureyri, Gilfélagið, VMA, Myndlistarfélagið og MA.