Fara í efni

Myndlist og tónlist tvinnuð saman á myndböndum

Frumleiki og sköpunarkraftur. Hugtök sem lýsa vel myndböndum sem nemendur á listnámsbraut hjá Björgu Eiríksdóttur hafa unnið í áfanganum Listir og menning 2013, þar sem tvinnað er saman mynd- og tónmáli sem nemendurnir hafa samið og skapað.

Frumleiki og sköpunarkraftur. Hugtök sem lýsa vel myndböndum sem nemendur á listnámsbraut hjá Björgu Eiríksdóttur hafa unnið í áfanganum Listir og menning 2013, þar sem tvinnað er saman mynd- og tónmáli sem nemendurnir hafa samið og skapað.

Eftirfarandi er lýsing á þessum áfanga á vef VMA:  „Nemandinn kynnir sér menningarumhverfi eigin samtíma. Farið verður í skilgreiningar á algengum hugtökum í menningarumræðu samtímans og ólík viðhorf sem birtast í þeirri umræðu kynnt. Námið byggist á virkri þátttöku nemandans og frumkvæði þar sem hann kynnist því sem er að gerast í menningarlífinu og metur það út frá eigin forsendum og fjallar um í hópi samnemenda. Hlutverk kennarans er að aðstoða nemendur við undirbúning og úrvinnslu athugana sinna með því að tengja þær við hugmyndafræði og menningarsögu.“

Björg Eiríksdóttir segir að nemendur hafi í vetur verið duglegir við að sækja myndlistarsýningar, séð bíómyndir og farið á tónleika. Þá hafi þeir sótt fyrirlesta, m.a. fyrirlestur Egils Ingibergssonar, leikmynda- og ljósahöfundar, sem einnig leiðbeindi nemendum um sitt fagsvið. Nemendur sóttu einnig fyrirlestur Ragnheiðar Skúladóttur, leikhússstjóra LA, í vetur um sjónlistir, þar sem komið var inn á svokallað „device theater“.

Þegar öll þekkingaröflun vetrarins var lögð saman voru nemendur færir í flestan sjó fyrir sína eigin sköpun í áfanganum. Í ljósi þess að margir nemendur í áfanganum eru færir um að spila á hljóðfæri var niðurstaðan að tvinna saman myndlist og tónlist og útkoman var sú að nemendum var skipt upp í fjóra hópa sem hver um sig gerði myndband þar sem myndlistin og tónlistin var tvinnuð saman. Sannkallaður spuni , sem varð til á um klukkutíma.  Sjón er sögu ríkari.

Hér má sjá þrjú af fjórum hópaverkefnunum.

Myndbandið sem má sjá með því að smella á neðangreindan hlekk gerðu þeir bræður Þórður Indriði og Þórir Óskar Björnssynir ásamt Ellenu Guðmundsdóttur og Elínu Sif Sigurjónsdóttur.

http://www.youtube.com/watch?v=LAW5Peb8np0

Og næsta myndband gerðu þau Karen Erludóttir, Elfur Sunna Baldursdóttir, Kristín Jónsdóttir, Snædís Birna Jósepsdóttir og Dagbjört Héðinsdóttir.

http://www.youtube.com/watch?v=waFnocPOeW8

Og þriðja myndbandið, sem höfundar kalla Mickey Mouse Delivers Justice, er unnið af þeim Þorvaldi Guðna Sævarssyni, Gunnari Inga Jósepssyni, Laufeyju Björk Kristjánsdóttur og Álfheiði Þórhallsdóttur.

http://www.youtube.com/watch?v=2zMYNiCWpVQ&feature=youtu.be

Í fjórða hópnum voru María Fríða Bertudóttir, Aldís Marta Sigurðardóttir, Anna María Hallgrímsdóttir, Dagný Halla Björnsdóttir, Dagný Lilja Arnarsdóttir, Katla Ósk Káradóttir og Nína Kristín Árnadóttir.  

http://www.youtube.com/watch?v=zkCNPYvBlsU&feature=youtu.be