Fara í efni

Mörg stór verkefni í félagslífinu á næstu vikum

Hluti leikhópsins í Bjart með köflum.
Hluti leikhópsins í Bjart með köflum.

Núna þegar sól er farin að hækka á lofti á ný taka við ný og krefjandi verkefni í félagsmálunum í VMA. Margir stórir viðburðir eru framundan og því verður heldur betur í mörg horn að líta fyrir þá nemendur sem standa í eldlínunni og svo auðvitað viðburðastjórann, Pétur Guðjónsson.

Næstkomandi miðvikudag mætir spurningalið VMA til leiks í Gettu betur og etur kappi við Ísfirðinga í forkeppninni á Rás 2 í Rúv.

Skráning er hafin í söngkeppni VMA sem haldin verður í Hofi 18.febrúar eins og í fyrra, en þar var hún haldin í fyrsta skipti og þótti takast mjög vel. Skráning er til og með 1. febrúar á petur@vma.is 

Í mars er stóra verkefnið árshátíð nemenda sem verður haldin þann 11. mars. Til þess að undirbúa árshátíðina  þarf vinnufúsar hendur og það sama á við um vinnslu skólablaðsins núna á vorönn. Það er um að gera að hafa samband við Pétur viðburðastjóra, annað hvort með því að hringja í hann eða senda á hann póst á petur@vma.is  

Þessa dagana og næstu vikur eru æfingar á söngleiknum Bjart með köflum eftir Ólaf Hauk Símonarson. Frumsýning verður þann 27. febrúar í Freyvangi í Eyjafjarðarsveit. Núna eru æfingar flest kvöld í Gryfjunni og síðan er gert ráð fyrir að æfingarnar færist fram í Freyvang í byrjun febrúar. Fimmtán hlutverk eru í sýningunni en ætla má að með öllu taki í það minnsta þrjátíu manns þátt í sýningunni. Hér er Pétur Guðjónsson, viðburðastjóri og leikstjóri Bjart með köflum, að spá í spilin og hér má sjá þar sem hann er að leiðbeina leikendum í einu atriði sýningarinnar. Að sjálfsögðu þarf að mörgu að huga eins og búningum, gervum, hárgreiðslu og sviðsmynd og þar koma margir að – bæði nemendur og kennarar. Harpa Birgisdóttir, kennari í hársnyrtigreinum, sem hefur áralanga reynslu úr leikhúsi, síðan hún starfaði hjá Leikfélagi Akureyrar og Freyvangsleikhúsinu, mun ásamt fjölmörgum öðrum leggja þessu verkefni lið. Einnig verður sett saman heilmikil hljómsveit til þess að spila undir í sýningunni, en margir slagarar frá sjöunda áratugnum verða fluttir í sýningunni. Þetta er sannarlega flókin sýning og viðamikil og því ljóst að allir þeir sem koma að henni þurfa að leggja á sig mikla vinnu til þess að koma þessu öllu heim og saman.