Fara í efni

Mikilvægt að tala um eineltið

Ingibjörg Vincentsdóttir.
Ingibjörg Vincentsdóttir.

Í vetur var farin ný leið í námsmati í nýjum félagsfræðiáfanga – sem áður var félagsfræði 103. Unnið var í áfanganum samkvæmt þeirri áherslu skólans að auka leiðsagnarmat og símat. Kennararnir Hrafnhildur Sigurgeirsdóttir og Valgerður Dögg Jónsdóttir gáfu nemendum nokkuð lausan tauminn við framsetningu á lokaverkefni í áfanganum og máttu þeir skila stuttmynd, teiknimyndasögu, málverki, ritgerð, grein, frétt eða á öðru formi sem hentaði viðkomandi verkefni. Nemendur kynntu síðan verkefnin, þar á meðal Ingibjörg Vincentsdóttir og náði kynning hennar afar sterkt til samnemenda hennar. Ingibjörg setti verkefni sitt fram í formi hálfgerðar teiknimyndasögu og þar fjallaði hún á áhrifamikinn hátt um einelti sem hún varð fyrir í grunnskóla. Hún hafði ekki áður fjallað um þetta opinberlega en fannst mikilvægt að taka það skref sem lið í því að vinna sig frá þessari sáru reynslu í æsku.

Ingibjörg Vincentsdóttir er nítján ára gömul og stundar nám á listnámsbraut VMA. Hún ólst upp og gekk í grunnskóla á Akureyri og segir að fljótlega eftir að hún fór að sækja skólann hafi farið að bera á eineltinu. „Ég var allan tímann í sama grunnskólanum á Akureyri og ég hef lokað á flestar minningar frá þessum tíma enda eru þær margar mjög sárar. Þetta byrjaði strax þegar ég var sjö ára, á fyrsta árinu í grunnskóla, og meira að segja var ég útskúfuð af vinum mínum. Ég var hrædd við að fara í skólann og ef ég heyrði krakkana hlæja þegar ég nálgaðist skólastofuna hljóp ég aftur heim, ég óttaðist að þau myndu hlæja að mér. Mamma var á sínum tíma einnig lögð í einelti og hún áttaði sig á því út frá því hvernig ég hagaði mér að ég væri lögð í einelti í skólanum. Hún talaði ítrekað við skólann en án árangurs. Krakkarnir sögðu við mig að þau vildu ekki hitta mig í skólanum vegna þess að ég væri ekki nógu vinsæl. Mér fannst alltaf mjög gaman í íþróttum og elskaði að hlaupa og ærslast en fljótlega varð þessi ánægja að engu. Ef ég sparkaði vitlaust í boltann var öskrað á mig og smám saman varð ég svo hrædd við að vera dæmd að ég hætti hreinlega að reyna nokkuð í íþróttatímunum. Öfugt við marga sem lenda í einelti reyndi ég ekki að breyta mér. Ég hélt áfram að vera ég sjálf og kærði mig ekki um að breyta mér í þá átt sem krakkarnir vildu. Vinkona mín spurði mig einu sinni af hverju ég reyndi ekki að vera vinsæl, því ég gæti það alveg. Ég svaraði henni því til að ég vildi það ekki því mér líkaði ekki við krakkana,“ segir Ingibjörg.

Með nýjum kennara í fimmta bekk grunnskóla varð breyting á, að sögn Ingibjargar. Hann var vel meðvitaður um eineltið, fylgdist vel með og tók fast á málum ef hann skynjaði að eitthvað óeðlilegt var í gangi. Í sjötta eða sjöunda bekk voru bekkirnir stokkaðir upp og nemendasamsetning þeirra breyttist. Ingibjörg og vinkonur hennar stóðu þétt saman gegn frekara einelti.

Ingibjörg segist hafa verið haldin kvíðaröskun frá barnæsku og eineltið hafi ekki bætt úr skák. Mikilvægt sé að viðurkenna kvíðaröskunina fyrir sjálfri sér og takast á við hana. Hún segir að í sínum huga sé einnig mikilvægt að ræða um eineltið sem hún varð fyrir ef það gæti orðið til þess að hjálpa öðrum sem eru í svipuðum sporum. „Mér finnst gott að geta talað opinskátt um þetta, það hjálpar mér,“ segir Ingibjörg Vincentsdóttir.

Um framtíðina segir Ingibjörg að hún stefni að því að fara í nám í sálfræði og mögulega fari hún einnig í listnám í fyllingu tímans.