Fara í efni

Mikilvægt að halda daglegu skipulagi í fjarnámi

Svava Hrönn Magnúsdóttir námsráðgjafi í VMA segir að aldrei sé lögð of mikil áhersla á mikilvægi þess að nemendur fylgi sínu daglega skipulagi þó svo að þeir séu að takast á við námið með öðrum hætti en í dagskóla. Sameiginlegt verkefni allra – kennara og nemenda – sé eftir sem áður að láta dæmið ganga upp eins vel og kostur er við aðrar aðstæður. Kennarar leggi sig fram um að vera í sambandi við nemendur sína og fylgist þannig með virkni þeirra og að sama skapi vilji kennarar heyra reglulega frá nemendum.

Svava segist telja að almennt hafi skólastarfið gengið nokkuð vel í þessari fyrstu viku náms með breyttu sniði, í ljósi þess að fyrir marga hafi þetta verið nýr og nokkuð framandi veruleiki. Kennarar hafi verið í sambandi við nemendur sína og þannig náð að fylgjast með virkni þeirra. Því miður sé þó alltaf svo að hætta á brottfalli aukist við þessar aðstæður og því sé það mikilvægt verkefni heimila og skólans að taka höndum saman um að koma í veg fyrir það. Númer eitt, tvö og þrjú sé að nemendur líti á fjarnámið með sömu augum og ef þeir væru í dagskólanum og sinni því að sama skapi. Farsælt sé að fylgja stundaskránni eins og þeir væru í dagskóla og segir Svava að sér sé kunnugt um að margir kennarar haldi uppteknum hætti og kenni sínar námsgreinar í fjarnámi á þeim tíma sem þeir ættu að vera að kenna þær í skólastofum í VMA.

Svava segir að beri að undirstrika að hér sé um langhlaup að ræða, óvíst sé hversu lengi þetta fyrirkomulag gildi um skólastarfið. Þess þá heldur sé svo mikilvægt að nemendur komi sér strax í þær stellingar að stunda námið samviskusamlega samkvæmt fyrirmælum kennara en líti ekki á þetta ástand sem langt frí. „Í þessari stöðu reynir á okkur öll og það er aldrei eins mikilvægt fyrir nemendur og nú að finna að við foreldrar þeirra sýnum því áhuga sem þeir eru að fást við og hvetjum þá áfram í náminu,“ segir Svava Hrönn.

Mikilvægi reglulegs svefns við slíkar aðstæður verður aldrei of mikið undirstrikað og það sama á við hollt mataræði og hreyfingu. Hér eru holl og góð ráð frá embætti landlæknis um svefn og fleira sem vert er að benda nemendum á að kynna sér.

Námsráðgjafar VMA eru með símatíma alla virka kl. 09:00-11:00 í síma 464 0300. Auk símatímans er hægt að senda fyrirspurnir og óska eftir símaviðtölum með því að senda tölvupóst á námsráðgjafana Svövu Hrönn Magnúsdóttur (svava@vma.is) eða Helgu Júlíusdóttur (helgajul@vma.is)