Fara í efni

Mikil upplifun og fróðleikur

Hluti nemendanna af listnáms- og hönnunarbraut VMA sem störfuðu í kringum A Gjörningahátíðina á Akur…
Hluti nemendanna af listnáms- og hönnunarbraut VMA sem störfuðu í kringum A Gjörningahátíðina á Akureyri um síðustu helgi.

Sem endranær var líf og fjör á A Gjörningahátíðinni á Akureyri um síðustu helgi en hún er árlegur viðburður og hefur verið haldin síðan 2015. Frá upphafi hefur listnáms- og hönnunarbraut VMA komið að A Gjörningahátíð og í ár störfuðu nokkrir nemendur á brautinni við hátíðina; Hemmi, Minna Kristín, Rökkvi Týr, Jasmín, Felix Hrafn, Mahaut Ingiríður og Emelía Ósk.

A! Gjörningahátíðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Leikfélags Akureyrar, Menningarhússins Hofs, Gilfélagsins, listnáms- og hönnunarbrautar VMA, Myndlistamiðstöðvarinnar, Einkasafnsins, Vídeólistahátíðarinnar Heim, Myndlistarfélagsins, Háskólans á Akureyri, RIFF og NAPA. Í stjórn hátíðarinnar eru Guðrún Þórsdóttir, Arna G. Valsdóttir, Hlynur Hallsson og Marta Nordal.

Hátíðin er sú eina sinnar tegundar á Íslandi, hún hefur því fyrir löngu skapað sér nafn og er orðin fastur liður á almanaki listunnenda. Enda eru gjörningar skemmtilegt listform sem hafa lengi verið áhugaverður hluti listsköpunar og hafa sinn sess í listasögunni. Arna G. Valsdóttir hefur einmitt núna á haustönn verið að miðla til nemenda sinna í listasögu fróðleik um gjörningalistina en sögu hennar á Íslandi má rekja aftur til SÚM-listhópsins á sjöunda áratugnum.

Margir afar áhugaverðir gjörningar voru á hátíðinni í ár, eins og hér má sjá. Trúlega bar þó hæst frumsýningu gjörnings Sigurðar Guðmundssonar, Fyrsti performansinn í sögu mannkynsins, en hann er einn frumkvöðla gjörningalistformsins á Íslandi.

Hemmi, einn nemendanna á listnáms- og hönnunabraut VMA sem tóku þátt í A Gjörningahátíðinni, segist ekki hafa þekkt mikið til gjörningalistar en þátttakan í hátíðinni hafi verið mikil og skemmtileg upplifun og þakklæti sé sér efst í huga að hafa fengið tækifæri til þess að taka þátt í hátíðinni.

Minna Kristín segir það hafa verið mikla upplifun og ómetanlega reynslu og lærdóm að fá að vinna í kringum A Gjörningahátíðina og sjá hlutina gerast, bæði í aðdraganda gjörninganna og að sjá þá verða að veruleika. Minna Kristín sá alla gjörningana á hátíðinni og segir þá hafa verið ólíka en eftirminnilega. Til dæmis sé mjög eftirminnilegur gjörningurinn Oh sem Grænlendingurinn Hans-Henrik Souersaq Poulsen var með og ekki síður segir Minna Kristín það hafa verið mikla upplifun að sjá gjörning Sigurðar Guðmundssonar og fá tækifæri til þess að eiga samtal við hann og kynnast listsköpun hans.

Hér eru nokkrar myndir frá A Gjörningahátíðinni frá Örnu G. Valsdóttur og Listasafninu á Akureyri.