Fara í efni

Miðasala hafin á Ávaxtakörfuna

Ávaxtakarfan verður sett upp í Hofi í febrúar 2018
Ávaxtakarfan verður sett upp í Hofi í febrúar 2018
Miðasala á fjölskylduleikritið Ávaxtakörfuna, sem Leikfélag VMA frumsýnir í Hofi 11. febrúar 2018, er hafin á annars vegar mak.is og hins vegar í miðasölunni í Hofi.
 
Ávaxtakarfan er stórt og metnaðarfullt verkefni og því var ákveðið að hafa æfingatímann óvenju langan. Hafist var handa af fullum krafti í október og hafa æfingar gengið ljómandi vel undir stjórn leikstjórans Péturs Guðjónssonar og aðstoðarleikstjórans Jokku. Einnig hefur Sindri Snær Konráðsson lagt sín lóð á vogarskálarnar með því að stýra söngæfingum.
Auk leikæfinganna sjálfra hefur verið unnið mikið og gott starf í búningagerð og eru búningar nú að stórum hluta tilbúnir, sem verður að teljast afburða gott, sléttum tveimur mánuðum fyrir frumsýningu.
 
Við eigum þess kost að taka smá forskot á sæluna núna í aðdraganda jóla. Síðastliðinn laugardag voru leikarar úr sýningunni á Glerártorgi og þeir verða þar aftur 16. 22. og 23. desember nk.
 
Sem fyrr segir er miðasala á Ávaxtakörfuna komin í fullan gang. Hvernig væri að gefa miða á þessa bráðskemmtilegu sýningu í jólagjöf? Er það ekki hugmynd til þess að velta vöngum yfir?