Fara í efni

Miðasala á Grís komin í fullan gang - uppselt á frumsýningu

Miðasala á Grís er hafin - uppselt á frumsýninguna
Miðasala á Grís er hafin - uppselt á frumsýninguna

Miðasala er hafin á uppfærslu VMA á Grís. Hægt er að panta miða annað hvort með því að hringja í síma 7934535 milli kl. 16 og 19 virka daga eða senda tölvupóst á netfangið midasala@thorduna.is. Miðana fá sýningargestir afhenta við innganginn og greiða þar fyrir þá – hvort sem er með kortum eða peningum.

Til að byrja með eru fjórar sýningar í sölu – frumsýningin föstudaginn 19. febrúar, önnur sýning laugardaginn 20. febrúar, þriðja sýning föstudaginn 26. febrúar og fjórða sýning laugardaginn 27. febrúar. Allar sýningarnar hefjast kl. 20:00. 

Fjöldatakmarkanir vegna Covid gera það að verkum að hámarksfjöldi gesta á sýningarnar, sem verða í Gryfjunni í VMA, er 100 manns. Nú þegar er orðið uppselt á frumsýninguna 19. febrúar, sem gefur til kynna mikinn áhuga á sýningunni. Það er því eins gott að hafa hraðar hendur og panta sem fyrst miða á sýninguna.

Verð aðgöngumiða er kr. 3.900 fyrir fullorðna, fyrir börn f. 2005 og yngri kostar miðinn kr. 3.400.

Uppfærslan á Grís er flókin og viðamikil og að henni kemur stór hópur nemenda í VMA og fleiri. Leikstjóri er Pétur Guðjónsson og aðstoðarleikstjóri Jokka – Jóhanna G. Birnudóttir.

Allar stundir sem gefast á milli kennslustunda nýta nemendur til þess að taka til hendinni. Mörg verk þarf að vinna. Í gær gripu nokkrir nemendur penslana og málningarrúllurnar og máluðu hluta leikmyndarinnar, sem smám saman er að verða til á sviðinu í Gryfjunni.