Fara í efni

Metfjöldi í sveinsprófi í rafvirkjun

Svipmynd úr sveinsprófnu. Mynd: Haukur Eiríksson.
Svipmynd úr sveinsprófnu. Mynd: Haukur Eiríksson.

Í liðinni viku þreyttu 25 verðandi sveinar sveinspróf í rafvirkjun í húsakynnum VMA. Aldrei áður hafa fleiri tekið sveinspróf í VMA en próftakar komu bæði af Norður- og Austurlandi. Á sama tíma voru sveinspróf í rafvirkjun í Reykjavík.

Sveinsprófið skiptist í fimm meginþætti: Rafmagnsfræði og stýrikerfi, íslenskan staðall, raflagnateikningu, mælingar og verklegt próf – raflagnir og stýringar.

Í verklegum mælingum var farið í spennu-, straum-, viðnáms-, hringrásarviðnáms-, skammhlaups- og einangrunarmælingar, ásamt íhluta- og rofamælingum.

Í íslenskum staðli var spurt út í ÍST-HB 200:2021, reglugerð um raforkuvirki, tæknilega tengiskilmála rafveitna og almenn störf rafvirkja.

Í skriflegum hluta rafmagnsfræði, stýrikerfa og búnaðar var farið í virkni stýri- og kraftrása, hönnun, teikningu og frágang á stýri- og kraftrásum, iðntölvur, loftnets-, samskipta- og aðvörunarkerfi, rökrásir, loftstýringar, rafeinda- og lýsingartækni, hreyfla og rafala, útreikningar á ein- og þrífasa riðstraumskerfum og verkefni úr jafnstraumskerfum.

Í skriflegu próf í raflagnateikningum var fyrst og fremst horft á lestur og frágang raflagnateikninga.