Fara í efni

Mér er fokking drullusama - frumsýning í dag í Gryfjunni

Í dag kl. 17:30 verður frumsýndur í Gryfjunni einþáttungurinn „Mér er fokking drullusama“ eftir Pétur Guðjónsson, viðburðastjóra VMA, og Jóhönnu G. Birnudóttur – Jokku. Höfundarnir leikstýra verkinu en allir aðrir sem koma að sýningunni hafa áður komið við sögu í leiklistinni í VMA. Sýningin er sett upp í samvinnu höfunda, Þórdunu – nemendafélags VMA og skólans.

Pétur og Jokka hafa í þrígang áður samið saman sviðsverk og einnig sameinuðu þau krafta sína í handritinu að stuttmynd sem nú er í lokavinnslu. Þennan einþáttung, sem tekur 15 mínútur í sýningu, skrifuðu Pétur og Jokka á fyrri hlut síðasta árs. Í verkinu kemur við sögu framhaldsskólaneminn Sveinn sem er í óreglu, ofbeldishneigður og lendir oftar en ekki upp á kant við kennara sína. Brugðið er upp svipmynd af augnbliki í lífi Sveins þegar hann lendir í baráttu við sína innri rödd, djöfulinn og samviskuna.

Fjórir leikarar koma fram í sýningunni: Sindri Snær Konráðsson, Steinar Logi Stefánsson, Ragnheiður Diljá Káradóttir og Jara Sól Ingimarsdóttir. Haukur Sindri Karlsson skapar hljóðmynd sýningarinnar á flygilinn í Gryfjunni, Stefán Jón Pétursson sér um lýsingu og Hrefna Björnsdóttir hannar búninga og farðar.

Hér má sjá nokkrar svipmyndir sem Egill Bjarni Friðjónsson tók á æfingu á verkinu í vikunni.

Sem fyrr segir verður frumsýning í dag, föstudag, kl. 17:30. Fjórar aðrar sýningar verða á verkinu – frá sunnudegi til miðvikudags – 12.-15. febrúar. Allar sýningarnar verða í Gryfjunni og hefjast kl. 17:30.

Verð aðgöngumiða á sýninguna er kr. 1000. Miðar verða einungis seldir við innganginn. Ekki verða teknar pantanir á sýninguna. Ef nánari upplýsinga er óskað skulu fyrirspurnir sendar á Pétur Guðjónsson – petur@vma.is. Tekið er fram að ekki er mælt með sýningunni fyrir börn yngri en 12 ára.