Fara í efni

Með vinstri hendina í fatla í málminum

Aron (t.v) og Elvar Frans. Mynd: Hörður Óskarsson.
Aron (t.v) og Elvar Frans. Mynd: Hörður Óskarsson.
Eins og aðrir lenda nemendur í óhöppum í leik og starfi. Þeir félagarnir Aron Hákonarson og Elvar Frans Bjarnason, sem stunda nám í grunndeild málmiðnaðar í VMA, hafa báðir verið með vinstri hendina í fatla að undanförnu. Ástæðan er sú sama – brot á vinstri handlegg.

Eins og aðrir lenda nemendur í óhöppum í leik og starfi. Þeir félagarnir Aron Hákonarson og Elvar Frans Bjarnason, sem stunda nám í grunndeild málmiðnaðar í VMA, hafa báðir verið með vinstri hendina í fatla að undanförnu. Ástæðan er sú sama – brot á vinstri handlegg.

Eins og gefur að skilja er nokkrum erfiðleikum bundið að vera í verklegu námi með aðra hendina óvirka, en allt blessast þetta nú samt og þeir piltar koma að sjálfsögðu til með að ljúka önninni í vor eins og aðrir. Þurfi þeir meira en eina hendi til þess að leggja lokahönd á lokaverkefni sín njóta þeir aðstoðar félaga sinna og kennara.

Elvar Frans varð fyrir því óláni að detta á bretti í Hlíðarfjalli en kínverskur íshokkíleikmaður sá til þess að gera Aron óvirkan á vinstri hendinni.

Þannig er að Aron er í íslenska landsliðinu í íshokkí undir 18 ára og hann var ásamt liðsfélögum sínum að keppa í Eistlandi í dymbilvikunni. Fyrsti leikurinn var gegn Spánverjum og þar spilaði Aron eins og vera ber af fullum krafti. Í öðrum leiknum gegn Kínverjum varð Aron fyrir því óláni að vinstri hendin brotnaði illa í samstuði við einn leikmanna Kínverjanna. Aron mátti bíta í það súra epli að þurfa að fara snarlega heim til Íslands þar sem brotið var lagað í aðgerð.

Þetta óhapp ætti þó ekki að setja strik í reikninginn hjá Aroni, hann verður að óbreyttu klár til frekari afreka á ísnum í haust og hann verður sömuleiðis tilbúinn að takast á við ný verkefni í VMA í haust þegar hann hellir sér þar í vélstjórnarnám. Stefnir á vélstjórnarréttindi og mögulega einnig skipstjórnarréttindi í framhaldinu. Kemur allt í ljós í fyllingu tímans.