Fara í efni

Með krafta í kögglum

Þorsteinn Ægir og Anna Marý.
Þorsteinn Ægir og Anna Marý.

Þau Anna Marý Aðalsteinsdóttir og Þorsteinn Ægir Óttarsson eiga ýmislegt sameiginlegt.  Þau útskrifast sem stúdentar frá VMA í vor, stunda íþróttir, stefna á nám í sjúkraþjálfun og settu bæði persónuleg met í réttstöðulyftu á réttstöðulyftumótinu sem efnt var til í heilsuvikunni í VMA í Gryfjunni sl. miðvikudag. Anna Marý lyfti 110 kílóum og Þorsteinn 277,5 kílóum. Hér eru myndir af þessum lyftum.

„Ég æfi ekki lyftingar reglulega. Hins vegar var ég um tíma í Crossfit í fyrra og lyfti þá en núna er ég í „pole fitness“,“ segir Anna Marý Aðalsteinsdóttir, nemandi á íþrótta- og lýðheilsubraut. Auk námsins í VMA er hún þjálfari hjá Fimleikafélagi Akureyrar. Anna Marý útskrifast með stúdentspróf í næsta mánuði og stefnir að því að fara að því loknu til Danmerkur í nám í sjúkraþjálfun.

Þorsteinn Ægir Óttarsson er í landsliðinu í kraftlyftingum og æfir því grimmt hjá Kraftlyftingafélagi Akureyrar. „Ég æfi 3-4 tíma á dag, nema sunnudaga. Þetta er þriðja árið mitt í landsliðinu og ég myndi segja að ég sé nokkuð jafn í keppnisgreinum kraftlyftinga,“ segir Þorsteinn. Mótið sl. miðvikudag var ekki opinbert keppnismót og því fæst lyfta Þorsteins ekki skráð en engu að síður er ljóst að hann ræður vel við þessa þyngd. Besta skráða lyfta Þorsteins í réttstöðulyftu var 275 kíló og því nam bætingin 2,5 kílóum. „Það er alltaf stefnan að bæta sig og því var ég ánægður með að hafa náð að lyfta þessari þyngd í Gryfjunni,“ sagði Þorsteinn Ægir sem útskrifast sem stúdent af félags- og hugvísindabraut í vor.

Sem liður í lokaverkefni nemenda á félags- og hugvísindabraut safna nemendur nú peningum sem munu renna til einhvers verkefnis í þróunarlöndum. Nemendur söfnuðu áheitum fyrir réttstöðulyftumótið, allir voru hvattir til að heita á að Þorsteinn myndi bæta sinn persónulega árangur í réttstöðulyftu, sem hann gerði með miklum glæibrag.

„Ég hef áhuga á því að fara í nám í sjúkraþjálfun að loknu náminu hér, en maður veit aldrei, það kemur bara í ljós,“ segir Þorsteinn Ægir.

Sem fyrr segir er Þorsteinn Ægir í landsliðinu í kraftlyftingum. Hann keppir í -120 kílógramma flokki. Næsta stóra mót sem hann tekur þátt í verður Íslandsmótið í réttstöðulyftu og þar stefnir hann á að bæta sinn besta árangur. Áður en að því kemur fer hann út til Tékklands í lok þessa mánuðar og verður þar kærustu sinni, Írisi Hrönn Garðarsdóttur, til halds og trausts á Evrópumeistaramótinu í kraftlyftingum.

„Ég varð Norðurlandameistari í fyrra í mínum þyngdarflokki en náði ekki lágmörkum fyrir EM, var sautján kílóum frá því. En ég vona að ég nái þessum lágmörkum á þessu ári fyrir næsta mót,“ segir hinn nautsterki kraftlyftingamaður Þorsteinn Ægir Óttarsson.