Fara í efni

Með íþróttaáhugann í blóðinu

Alma Sól Valdimarsdóttir.
Alma Sól Valdimarsdóttir.

Alma Sól Valdimarsdóttir lauk tíunda bekk Glerárskóla sl. vor og valdi að innritast á íþrótta- og lýðheilsubraut VMA. Aldrei kom annað til greina, segir hún, en að feta námsslóðina í þessa átt enda hefur hún mikinn áhuga á íþróttum og hefur spilað fótbolta til fjölda ára hjá Íþróttafélaginu Þór.

„Ég hef mikinn áhuga á því að vinna eitthvað sem tengist íþróttum í framtíðinni,“ segir Alma Sól þegar hún er spurð um ástæðu þess að hún valdi að innritast á íþrótta- og lýðheilsubraut. „Ég hafði reyndar lengi stefnt að því að fara til Bandaríkjanna í nám á fótboltastyrk en vegna þrálátra meiðsla þurfti ég að hætta að æfa og spila fótbolta fyrir síðustu jól. Ég hef verið að glíma við bak- og mjaðmameiðsli í um tvö ár og því miður var ekkert annað í stöðunni en að hætta. Það var auðvitað mjög erfitt en ég verð áfram í kringum fótboltann. Ég var komin upp á annan flokk Þórs/KA og hef auk þess verið að þjálfa fótbolta í yngri flokkunum hjá Þór – frá fjögurra ára og upp í ellefu ára aldur - og því ætla ég að halda áfram. Þetta er mjög gefandi starf og það er gaman að sjá þegar krakkarnir bæta sig,“ segir Alma Sól og bætir við að hún sé einnig að aðstoða Dýrleifu Skjóldal við sundþjálfun hjá Sundfélaginu Óðni.

Hún segist alveg geta hugsað sér að vinna í framtíðinni í hverskonar íþróttaþjálfun – t.d. í knattspyrnu eða sem einkaþjálfari og nám í íþróttafræðum komi vel til greina í framhaldi af stúdentsprófi frá VMA. Og eftir að hún sjálf meiddist í fótboltanum segist hún hafa leitt einnig hugann að því að mennta sig í því að hjálpa fólki sem verður fyrir hverskonar meiðslum að ná bata. Ein af leiðunum sé að læra sjúkraþjálfun

Alma Sól lýkur í vor fyrsta árinu af þremur til stúdentsprófs af íþrótta- og lýðheilsubraut. Þetta nám er víðfeðmt, eins og hér má sjá, og góður grunnur fyrir fjölmargar leiðir í námi að loknu stúdentsprófi.

Hér eru myndir af Ölmu Sól og samnemendum hennar á íþrótta- og lýðheilsubraut í blaktíma í Íþróttahöllinni á Akureyri.