Fara í efni

Matvælabrautarnemar buðu til veislu

Kokkarnir fara yfir skipulag kvöldsins með Ara H.
Kokkarnir fara yfir skipulag kvöldsins með Ara H.

Einn af föstum liðum í námi nemenda í grunndeild matvælabrautar VMA er svokallað foreldraboð, sem felst í því að nemendur bjóða til kvöldverðar foreldrum sínum og aðstandendum og öðrum gestum. Þessi skemmtilegi liður í skólastarfinu var í gærkvöld og óhætt er að segja að nemendur og starfsfólk á matvælabrautinni hafi vandað til verka og gert kvöldið allt hið glæsilegasta.

Sem vænta mátti var boðið upp á sannkallaðan veislumat. Í forrétt var boðið upp á gulrótarmauksúpu með tímjan, í aðalrétt pestófylltar kjúklingabringur með sætkartöflumús, gljáðu grænmeti og ostasósu og í eftirrétt marengstertu að hætti þingeysku húsmóðurinnar og kaffi/te. Sem sagt glæsilegur matseðill og bragðið eftir því, hreinasta lostæti!

Í grunndeild matvælabrautar eru að þessu sinni 23 nemendur og skiptu þeir verkum í gærkvöld. Nokkrir sáu um að matreiða forréttinn, aðrir aðalréttinn og þriðji hópurinn sá um eftirréttinn. Síðan önnuðust nokkrir nemendur þjónustuhlutann, að reiða fram matinn. Ari Hallgrímsson, starfandi brautarstjóri matvælabrautar, segir að nokkrir af nemendum á brautinni komi til með að starfa á hinum ýmsu hótelum og veitingastöðum á komandi sumri og fái þar góða innsýn í þennan heim og átti sig betur út á hvað hann gengur. Ari segir ljóst að á næstu árum, miðað við stóraukinn ferðamannastraum til landsins, verði aukin spurn eftir menntuðu matreiðslu- og framreiðslufólki og því ljóst að í þessum geira atvinnulífsins verði kappnóg að gera í framtíðinni.

Hjördís Stefánsdóttir kennari segir undirbúning og umsjón nemenda með slíkri veislu mjög mikilvægan þátt í náminu. Hér reyni á fjölmargt sem nemendur hafi fengið kennslu í, eins og að áætla hversu mikinn mat þurfi fyrir ákveðinn fjölda gesta, skipulag veislunnar, matreiðslan sjálf og að reiða matinn fram eftir kúnstarinnar reglum.

Hér eru nokkrar myndir sem voru teknar í foreldraboðinu á matvælabrautinni í gærkvöld.