Fara í efni

Matsönn: Hugsuð sem flýtileið fyrir nemendur í 10. bekk grunnskóla

Á vorönn verður í þriðja skipti boðið upp á svokallaða Matsönn VMA, sem er ætluð nemendum í 10. bekk grunnskóla sem hyggjast innrita sig í VMA næsta haust. Líta má á matsönn sem einskonar aukaönn fyrir grunnskólanema í 10. bekk og gefur hún viðkomandi nemendum tækifæri til þess að flýta námi sínu til almenns stúdentsprófs, stúdentsprófs að loknu starfsnámi eða framhaldsskólanámi af hvaða toga sem er.

Ásdís Birgisdóttir, námsráðgjafi við VMA, segir reynsluna af matsönn hafa verið prýðilega. „Það má líta á þetta sem einskonar stöðupróf í þeim kjarnagreinum sem matsönnin tekur til, sem eru enska, íslenska, stærðfræði og danska. Einnig tekur þetta til annarra áfanga eftir samkomulagi eins og þriðja tungumálsins eða náttúrugreina,“ segir Ásdís.

Umsóknarfrestur rennur út nk. þriðjudag, 15. janúar. Nemendur þurfa að hafa náð að minnsta kosti 8,0 í 9. og/eða 10. bekk í þeim greinum sem viðkomandi sækja um að taka. „Þessi möguleiki er hugsaður sem flýtileið nemenda til stúdentsprófs eða í öðru námi hér í skólanum,“ segir Ásdís og bætir við að nemendur þurfi að undirgangast próf á sama tíma og önnur próf verði í VMA í byrjun maí – áður en próf í grunnskólum hefjast. Ásdís vill undirstrika að þeir nemendur sem hyggjast sækja um matsönn hafi um leið ákveðið að sækja um skólavist í VMA haustið 2013. Einingar sem nemandinn taki núna á svokallaðri matsönn verði metnar og þannig geti hann skráð sig næsta haust í framhaldsáfanga í viðkomandi fagi og geti þannig fengið umtalsvert margar einingar skráðar á haustönn.   Fyrir matsönn greiða nemendur 15.000 krónur, sem gildir jafnframt sem innritunargjald haustannar 2013 og gjald fyrir nýnemaferð á haustönn. Allar frekari upplýsingar um matsönn veita námsráðgjafarnir Ásdís Birgisdóttir (disa@vma) og Svava Hrönn Magnúsdóttir (svava@vma.is) og Benedikt Barðason, áfangastjóri, (bensi@vma.is).

Umsóknareyðublað um matsönn má nálgast hér.