Fara í efni

Margrét Elísabet með þriðjudagsfyrirlestur

Margrét Elísabet Ólafsdóttir listfræðingur.
Margrét Elísabet Ólafsdóttir listfræðingur.

Í dag, þriðjudaginn 24. nóvember, kl. 17 heldur Margrét Elísabet Ólafsdóttir listfræðingur fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Bráðnun á ís – skapandi tengslanet í norðri.

Í fyrirlestrinum fjallar hún um North Creative Network sem er samstarfsverkefni Lornu – félags áhugamanna um rafræna list og rafrænu félagasamtakanna Piksel í Bergen,  i/o/lab í Stavanger og Rixc í Riga. Í maí síðastliðnum stóð Lorna fyrir vinnustofu í Reykjavík þar sem íslenskir og alþjóðlegir listamenn hittu íslenska jöklafræðinga og fræddust um bráðnun jökla. Vinnustofan fékk heitið Bráðnun á ís (Melting on Ice). Margrét Elísabet segir frá hugmyndinni að baki verkefninu, eðli samstarfsins, sem er styrkt af Uppbyggingarsjóði EFTA (EEA Grants), og skapandi aðferðum listamanna til að láta að sér kveða í umræðu um brýn málefni í samtímanum s.s. umhverfis- og orkumál. 

Margrét Elísabet Ólafsdóttir er doktor í list- og fagurfræði og lektor í listgreinakennslu við Háskólann á Akureyri. Hún er einnig einn stofnefnda Lornu – félags áhugamanna um rafræna list. 

Fyrirlesturinn er áttundi í röð þriðjudagsfyrirlestra í vetur.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri.

Aðgangur á fyrirlesturinn í dag er ókeypis.