Fara í efni

Margmiðlunin heillar

Hjörtur Benediktsson við verkið sitt.
Hjörtur Benediktsson við verkið sitt.

Hjörtur Benediktsson úskrifaðist af myndlistarkjörsviði listnámsbrautar VMA í desember sl. og núna starfar hann við afgreiðslustörf í ToysRus á Glerártorgi. Framtíðin er óráðin en nám í margmiðlun heillar.

„Ég byrjaði á náttúrufræðibraut en færði mig síðan yfir á listnámsbrautina og var þar í tvö og hálft ár. Ástæðan fyrir því að ég fór yfir á listnámsbraut var fyrst og fremst sú að bóknám og ég eru ekki bestu vinir og það kom líka í ljós að ég fann mig miklu betur á listnámsbrautinni,“ segir Hjörtur.

Eftir að Hjörtur útskrifaðist frá VMA í desember sl. hefur hann starfað í versluninni ToysRus á Glerártorgi en hann segir að einhvern tímann sé stefnan að halda áfram námi og þá heilli mikið að fara í margmiðlunarnám í Noregi. „Það var kynning hérna í VMA á námi í margmiðlun í Noregi og mér fannst það sérstaklega áhugavert. Ég hef mikinn áhuga á hljóðvinnslu. Ég hef aðeins prófað slíkt, m.a. í Freyvangsleikhúsinu, og það heillaði mig,“ segir Hjörtur en hann kemur úr Eyjafjarðarsveit.

Hjörtur segir að námið á listnámsbrautinni hafi verið mjög skemmtilegt og lærdómsríkt. „Það kenndi mér allt öðruvísi hugsunarhátt og víkkaði út sjóndeildarhringinn,“ segir Hjörtur en á meðfylgjandi mynd stendur hann við akrílmálverk sem hann vann í áfanganum MYL 504 á haustönn en það hangir uppi á vegg við austurinngang VMA.