Fara í efni

Manneskja, hestur og vængur

Sigríður Ingibjörg Pálmadóttir við verkið sitt.
Sigríður Ingibjörg Pálmadóttir við verkið sitt.
Sigríður Ingibjörg Pálmadóttir, nemandi á síðasta ári listnámsbrautar, á mynd vikunnar á vegg við austurinngang VMA. Myndefnið er manneskja, hestur og vængur.

Sigríður Ingibjörg Pálmadóttir, nemandi á síðasta ári listnámsbrautar, á mynd vikunnar á vegg við austurinngang VMA. Myndefnið er manneskja, hestur og vængur.

Sigríður Ingibjörg er Skagfirðingur, frá Garðakoti í Hjaltadal.  Á sínum tíma horfði hún til þess að fara á félagsfræðabraut VMA, en systir hennar, sem hafði verið í VMA, innritaði Sigríði á listnámsbraut. „Satt best að segja kom það mér í opna skjöldu þegar ég vissi að ég væri skráð á listnámsbraut, en í dag vil ég þakka systur minni kærlega fyrir að hafa skráð mig á þessa braut. Ég er mjög ánægð með námið og tímann hér í skólanum,“ segir Sigríður Ingibjörg, sem tók sér ársfrí frá náminu á listnámsbrautinni og fór sem skiptinemi til Venezuela.

Það kemur kannski ekki á óvart að hestur sé hluti af myndefninu í málverki sveitastelpunnar, enda segist hún „elska hesta“.  „Ég er reyndar hvorki góð að teikna manneskjur né hesta og einmitt af þeirri ástæðu ákvað ég að glíma við þessi mótíf í einni og sömu myndinni.“

Framtíðin segir Sigríður Ingibjörg að sé nokkuð óviss. Margt komi til greina – m.a. nám í ljósmyndun, sem hún segist hafa kynnst eilítið í námi sínu í VMA.