Fara í efni

Rafvirkjun ekkert frekar fyrir stráka en stelpur

Lilja Hólm Jóhannsdóttir.
Lilja Hólm Jóhannsdóttir.

Lilja Hólm Jóhannsdóttir er þrítugur Akureyringur og stundar nám í grunndeild rafiðna í VMA. Hún hóf þar nám fyrir rösku ári, haustið 2014, og er því á þriðju önn. Hún lýkur grunndeildinni í vor og að henni lokinni er stefna Lilju að halda áfram og ljúka námi í rafvirkjun.

Lilja er með rafgenin í blóðinu, ef svo má segja, því allt í kringum hana eru rafvirkjar. Afi hennar, Ólafur Jónsson, var rafvirki á Ljósgjafanum og pabbi hennar, Jóhann Hólm Ólafsson – Brói, rekur eigið rafiðnaðarfyrirtæki á Akureyri, Ljósco ehf. Og ekki nóg með það, bróðir hennar, Arnar Þór, starfar sem rafvirki og annar bróðir hennar, Viðar Hólm, vann við þetta um tíma en er nú starfandi verkfræðingur hjá Marel.

Árið 2002 fór Lilja í VMA en náði þá ekki að klára stúdentspróf. Hún segist einhvern veginn bara hafa gefist upp og ekki vitað nákvæmlega hvað hún vildi á þeim tíma. Hún fór að vinna hin ýmsu störf, bæði á Akureyri og sunnan heiða, en innst inni var alltaf til staðar löngunin til þess að setjast á skólabekk á nýjan leik. Hún lét síðan verða af því og fór í SÍMEY þar sem hún kláraði nokkur grunnfög. „Ég fór síðan á fund Ásdísar námsráðgjafa  hér í VMA og velti með henni upp ýmsum möguleikum. Ásdís var alveg hörð á því að ég ætti að fara í rafvirkjun og það varð úr. Hér er ég og sé ekki eftir því. Ég sé ekkert annað fyrir mér en að ljúka þessu námi og vinna síðan við þetta. Er raunar byrjuð á samningi hjá pabba og vann sl. sumar í faginu.  Það er allt annar hlutur að setjast á skólabekk á þessum aldri, þetta er miklu skemmtilegra og maður nýtur þess. Og svo eru kennararnir hér í rafiðnaðardeildinni alveg frábærir. Þetta er mjög áhugavert nám en jafnframt krefjandi, maður þarf að hafa fyrir þessu,“ segir Lilja, en þegar hún var trufluð í kennslustund var hún að setja saman aflgjafa samkvæmt kúnstarinnar reglum.

Lilja á tvær dætur, 5 og 8 ára, með manni sínum, Jóni Friðriki Þorgrímssyni, veitingastjóra á Hótel Kea. Sú yngri heitir París Hólm og sú eldri Nadia Hólm. Og til viðbótar við að púsla saman heimilishaldi og námi vinnur Nanna einn dag í viku í rafvirkjuninni hjá pabba sínum og er oft þar að auki plötusnúður á dansstöðum og í einkasamkvæmum. Lilja hefur raunar verið plötusnúður í sextán ár. Fékk þessa bakteríu forðum daga vegna mikils áhuga á tónlist og sá áhugi hefur haldist. Hún segir að starfinu fylgi að vera vel inni í nýjustu straumum í tónlistinni þannig að hún geti raðað saman lagalista sem passi öllum aldurshópum.

„Já, ég er nokkuð eldri en flestir skólafélaga minna hér. Og ég er klárlega eina mamman í þessum hópi,“ segir Lilja og brosir. En af hverju skyldu ekki fleiri konur velja að fara í rafvirkjun? „Já, það er góð spurning,“ svarar Lilja og er hugsi. „Ætli rafvirkjunin passi bara nokkuð inn í þessa svokölluðu staðalímynd kvenna? Ég veit satt best að segja ekki af hverju þetta nám ætti að vera frekar fyrir stráka en stelpur. Þetta nám höfðar til mín og það sama ætti að gilda um fleiri kynsystur mínar. Þær verða bara að prófa,“ segir Lilja Hólm.