Fara í efni

Málþing á morgun um listnám á háskólastigi á Akureyri

Málþingið verður í Listasafninu á Akureyri.
Málþingið verður í Listasafninu á Akureyri.

Lengi hefur verið rætt um þann möguleika að koma á fót háskólanámi í listum í einhverri mynd á Akureyri. Á morgun, miðvikudaginn 30. mars, verður efnt til málþings um þetta málefni. Að því standa Akureyrarbær og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra í samstarfi við Háskólann á Akureyri, VMA, MA, MTR, Listaháskóla Íslands og Listasafnið á Akureyri.

Svo sannarlega er þetta málefni VMA skylt því til fjölda ára hefur skólinn boðið upp á listnám og jafnan komast færri að í námið en vilja. Margir brautskráðir nemendur af listnáms- og hönnarbraut halda áfram í listnámi, í Reykjavík (t.d. í Listaháskólanum) eða í útlöndum. En sumir nemendur sem búsettir eru hér norðan heiða eiga af ýmsum ástæðum erfitt með að taka sig upp og flytja milli landshluta eða til útlanda til þess að afla sér frekari menntunar á listasviðinu. Fyrir þetta fólk og auðvitað fjölmarga aðra væri mikilvægt að fá listnám á háskólastigi á Akureyri. Það myndi án nokkurs vafa vera listnáms- og hönnunarbraut VMA mikill styrkur.

Málþingið á morgun, sem einfaldlega ber yfirskriftina Málþing um listnám á háskólastigi á Akureyri, verður kl. 14:00 í Listasafninu á Akureyri. Allir eru velkomnir.

Framsöguerindi flytja:

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.
Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands.
Anna Richardsdóttir, gjörningalistakona á Akureyri.

Að framsöguerindum loknum verða stutt ávörp listamanna og síðan taka við pallborðsumræður þar sem framsögumenn taka þátt en auk þess verða í pallborðinu Arna Valsdóttir, myndlistarmaður og kennari við listnáms- og hönnunarbraut VMA, og Benedikt Barðason, aðstoðarskólameistari VMA.

Lokaorð málþingsins flytur Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. Fundarstjóri verður Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri.