Fara í efni

Málmurinn ekkert síður fyrir stelpur en stráka

Ragnhildur Halla Þórunnardóttir.
Ragnhildur Halla Þórunnardóttir.

Einhverra hluta vegna virðist ganga erfiðlega að brjóta niður þá ímynd að ákveðnar námsgreinar séu karlagreinar og aðrar kvennagreinar. Gott dæmi um þetta er að af þeim tugum nemenda sem hófu nám í grunndeild málm- og véltæknigreina sl. haust voru aðeins þrjár konur, þar af er ein þeirra sextán ára gömul og kom beint í grunndeildina að loknum 10. bekk grunnskóla. Hún er frá Húsavík og heitir Ragnhildur Halla Þórunnardóttir.

„Ég held að megi segja að frá því í níunda bekk grunnskóla hafi ég verið ákveðin í því að fara í þetta nám. Líklega fékk ég áhuga á þessu vegna þess að pabbi minn er vélvirki og ég hef fengið tækifæri til þess að kynnast því sem hann er að gera. Stefnan hjá mér núna er að ljúka grunndeildinni og í framhaldinu langar mig að fara í vélfræðinginn og mögulega síðar í iðnaðarverkfræði,“ segir Ragnhildur Halla.

En af hverju fara ekki fleiri stelpur í málmiðnaðarfög? Ragnhildur Halla segir erfitt að svara því en stelpum finnist almennt að þetta sé strákanám. Því er hún ekki sammála og segir að grunndeild málm- og véltæknigreina sé ekkert síður fyrir stelpur en stráka. „Þessi verklegi hluti finnst mér mun áhugaverðari en sá bóklegi. Mér finnst mjög gaman að vinna með vélar og fá skilning á því hvernig þær virka. Auðvitað getur þetta verið óþrifalegt en það er eitthvað sem fylgir þessu bara,“ segir Ragnhildur Halla. Hún býr á heimavistinni og kann því vel. „Mér líkar vel að búa á vistinni. Vissulega voru töluverð viðbrigði að flytja hingað frá Húsavík en það er bara gaman að breyta til,“ segir Ragnhildur Halla Þórunnardóttir.