Fara í efni

Málmiðnbraut VMA fær rennibekk að gjöf

Hörður Óskarsson brautarstjóri við rennibekkinn.
Hörður Óskarsson brautarstjóri við rennibekkinn.

Í húsnæði málmiðnbrautar VMA hefur verið komið fyrir rennibekk sem Jóhann Brynjar Ingólfsson færði brautinni að gjöf á haustönn 2021. Rennibekkurinn er á borði sem nemendur í stálsmíði smíðuðu.

Jóhann Brynjar Ingólfsson fæddist á Grenivík 6. ágúst 1940. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri 22. janúar sl. og var til moldar borinn á Grenivík 29. janúar sl.

Stóran hluta starfsævinnar starfaði Jóhann Brynjar á Akureyri. Sextán ára gamall hóf hann að vinna hjá Sambandsverksmiðjunum á Gleráreyrum og kynntist þar störfum rafvirkja sem varð til þess að hann ákvað að læra rafvirkjun. Eftir tvö ár á sjó innritaðist Jóhann í Iðnskólann á Akureyri þar sem hann lauk sveinsprófi í rafvirkjun árið 1964. Meistari hans var Gústav Berg Jónasson í Raf hf. Jóhann fylgdi Raf hf. inn í byggingafyrirtækið Smára hf. og starfaði þar til 1975.

Eftir það starfaði hann í nokkur ár hjá Skeljungi og Malar- og steypustöðinni en um 1980 hóf hann aftur störf þar sem hann byrjaði, hjá Skinnaiðnaði á Gleráreyrum, en nú sem rafvirki. Þar starfaði Jóhann til 2001 þegar starfsemi Skinnaiðnaðar dróst verulega saman. Þá fór hann vestur á Hvammstanga og starfaði í átta ár með Helga S. Ólafssyni rafvirkja. Árið 2009 sneri Jóhann aftur til Akureyrar og starfaði hjá fyrrum nemanda sínum, Árna Bergmann Péturssyni í RAF ehf, þar til hann hætti að vinna árið 2015, 75 ára gamall.

Jóhann hafði brennandi áhuga á bílum og vélsleðum. Í ófáar vélsleðaferðirnar fór hann um fjöll og firnindi í góðra vina hópi og leiddist ekki að gera við þá sleða sem slógu feilpúst í þeim ferðum. 

Hann var dverghagur og nýtti þær tómstundir sem gáfust til þess að smíða nytja- og skrautmuni úr járni og grjóti. Þá var Jóhann ötull áhugaljósmyndari.

Guðni Hermannsson, bróðursonur Jóhanns, afhenti Herði Óskarssyni, brautarstjóra málmiðnbrautar, rennibekkinn undir lok síðasta árs, fyrir hönd Jóhanns Brynjars. Hann mun nýtast vel við kennslu í skólanum og vill VMA koma á framfæri innilegu þakklæti fyrir þessa góðu gjöf um leið og systkinum Jóhanns og öðrum ástvinum eru sendar einlægar samúðarkveðjur vegna fráfalls hans.